40 flug í viku til London utan háannatíma

Enn aukast flugsamgöngur milli Keflavíkur og flugvallanna í nágrenni við höfuðborg Bretlands. Fargjöld hafa lækkað á þessari leið.

Það verður flogið að jafnaði nærri sex sinnum á dag til London frá Keflavíkurflugvelli í febrúar og mars. Easy Jet og Icelandair fjölga þá ferðum sínum tímabundið þó þessir tveir mánuðir séu með þeim slökustu þegar litið er til farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli. Febrúar er einnig sá mánuður sem fæstir Íslendingar ferðast til útlanda í samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Breskum ferðamönnum hér á landi fjölgaði hins vegar um helming þessa tvo mánuði í fyrra í samanburði við sama tímabil árið 2012.

Gera tilraun á daglegu flugi hingað

Framboð á flugi milli Íslands og London hefur rúmlega tvöfaldast síðan árið 2012 þegar vikulegar ferðir voru nítján. Í næsta mánuði mun Icelandair til dæmis bjóða upp á tuttugu ferðir í viku til flugvallanna við Heathrow og Gatwick. Wow Air flýgur til þess síðarnefnda tvisvar alla daga nema laugardaga þegar aðeins morgunflug er í boði. Í næsta mánuði fjölgar Easy Jet svo vikulegum ferðum sínum í sjö. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er í skoðun að bjóða upp á daglegt flug til Lundúna frá Íslandi til frambúðar og verða gerða tilraunir til þess í febrúar og mars en síðan verða ferðirnar sex talsins. „En það mun ráðast af tilrauninni núna og eftirspurninni í sumar hvort farið verður þá aftur í daglegt flug til Lundúna næsta vetur og framvegis upp frá því“, segir í svari félagins við fyrirspurn Túrista.

Lægri fargjöld en í fyrra

Samkvæmt verðkönnun Túrista í síðustu viku kostar minna að fljúga til London í mars (viku 12) næstkomandi en það kostaði á sama tíma í fyrra. Lægstu fargjöld félaganna þriggja lækkuðu í öllum tilfellum en mest hjá Easy Jet.

LONDON-HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í London
NÝJAR GREINAR: Ferðaljósmyndir ársins – vinningshafar

Mynd: Visit London