Áfrýjunarnefnd fellst á kröfu Isavia

Stjórnendur Wow Air geta ekki farið fram á afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli líkt og Samkeppniseftirlitið hafði úrskurðað. Ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála mun ekki liggja fyrir í þessum mánuði.

Í úrskurði sínum 1. nóvember tók Samkeppniseftirlitið undir kröfur forsvarsmanna Wow Air um að fá afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli að morgni og seinnipartinn til að geta hafið flug til Bandaríkjanna. Isavia og Icelandair kærðu niðurstöðuna.

Nú hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála komist að þeirra niðurstöðu að réttaráhrifum úrskurðarins skuli frestað þar til að endanleg niðurstaða í málinu liggur fyrir líkt og Isavia hafði óskað eftir. En á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins segir að áfrýjun eigi ekki að seinka áhrifum úrskurða líkt og ný hefur verið ákveðið að gera.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í svari til Túrista í síðustu viku að hann vonaðist til að málið myndi leysast fyrir mánaðarmót en samkvæmt upplýsingum frá áfrýjunarnefndinni mun ákvörðun hennar ekki verða birt í janúar.

Það að málist tefjist fram í næsta mánuð kemur flugfélögunum hugsanlega illa því á föstudaginn þurfa þau að staðfesta notkun á þeim afgreiðslutímum sem þeim var nýverið úthlutað. En þá fékk Wow Air ekki þá tíma sem félagið óskaði eftir fyrir flug til New York og Boston og Icelandair hlaut ekki heldur þau pláss sem sótt var um fyrir flug til nýrra áfangastaða í Kanada.

Forsvarsmenn Wow Air hafa ekki viljað tjá sig um áform sín um flug til Bandaríkjanna þegar eftir því hefur verið óskað.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Á GISTINGU Í LONDON15% Í KAUPMANNAHÖFN3JA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: SVONA BORGAR ÞÚ MIKLU MINNA FYRIR BÍLALEIGUBÍL

Mynd: Isavia