Gott ferðaár framundan

Þeir sem ætla til útlanda í ár hafa úr miklu að moða og skiptir þá engu hvort þeir vilja fara á eigin vegum eða með fararstjóra.

Það stefnir í að meirihluti flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli fjölgi ferðum sínum í ár. Samkeppnin eykst á nokkrum flugleiðum og fjórir nýir áfangastaðir bætast við. Það eru kanadísku borgirnar Edmonton og Vancouver og Genf og Basel í Sviss. Ferðir til síðastnefndu borgarinnar eru á vegum Easy Jet en það er Icelandair sem bætir hinum þremur við leiðakerfi sitt í ár. Jómfrúarflugið til Edmonton verður farið í byrjun mars en hinar komast á kortið í vor og sumar. Önnur félög halda sig við sömu áfangastaði og á síðasta ári eða blanda sér í baráttuna um farþega á flugleiðum sem nú þegar eru í boði.

Nærri 8 ferðir á dag til Bretlands

Fyrir tveimur árum síðan var flogið héðan nítján sinnum í viku til London en í ár verða ferðirnar tvöfalt fleiri. Við þetta bætist svo áætlunarflug til Bristol, Edinborgar, Glasgow og Manchester og í heildina verður boðið upp á 54 ferðir á viku til Bretlands í ár frá Keflavík. Ástæðan fyrir þessari miklu aukningu er kannski sú staðreynd að breskum ferðamönnum hafði fjölgað um 41 prósent hér á landi milli ára í byrjun desember samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

Á fjarlægar slóðir

Það er ekki bara Ísland sem nýtur mjög aukinna vinsælda meðal erlendra ferðamanna. Þau í Búrma eru að ganga í gegnum álíka uppsveiflu því eftir að herforingastjórn landsins gerði útlendingum auðveldara um vik að heimsækja Búrma hefur straumurinn legið þangað. Þeir sem vilja heimsækja landið og njóta leiðsagnar íslensks fararstjóra geta gert það í mars þegar hópur að vegum Bændaferða leggur land undir fót. Þeir sem vilja til fjarlægra landa í ár geta valið úr þónokkrum ferðum til Asíu, S-Ameríku og Afríku í ár með íslenskum ferðaskrifstofum. En sennilega er óvenjulegasta ferðin á vegum Trans-Atlantic því ferðaskrifstofan efnir til hópferðar til N-Kóreu í vor.

Aukin samkeppni í sólarlandaferðum

Sumarblíðan lét varla sjá sig á suðvesturhorninu í fyrra og mikil eftirspurn var eftir ferðum héðan til útlanda þegar líða tók á júlí. Þrátt fyrir að margir Íslendingar hafi gert sér ferð til útlanda yfir sumarmánuðina þá var október sá mánuður sem flestir Íslendingar flugu frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári. Er þetta í fyrsta skipti, síðan Ferðamálastofa hóf mælingar í byrjun aldarinnar, sem einn af sumarmánuðunum er ekki vinsælasti mánuðurinn þegar litið er til utanlansferða Íslendinga. Hvort þetta mynstur er komið til að vera kemur í ljós en það er útlit fyrir að framboð á sólarlandaferðum frá Íslandi eigi eftir að aukast í sumar, til dæmis með tilkomu norrænu ferðakrifstofunnar Nazar.

Allt frá hruni hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað jafnt og þétt milli ára en ennþá er þó nokkuð í að ferðagleðin nái álíka hæðum og árið 2007. Þá flugu ríflega 406 þúsund íslenskir farþegar frá Keflavík en í lok nóvember í fyrra var talan komin upp í um 340 þúsund. Miðað við framboð á ferðum er líklegt að við nálgumst þetta sex ára met enn frekar í ár.

Vinsælt: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
TILBOÐ: 3ja nóttin frí í Edinborg fyrir lesendur Túrista

Mynd: Bændaferðir