Hóteltékk: Fairmont hotel í Toronto

Eitt þekktasta hótel kanadísku stórborgarinnar hentar þeim sem vilja búa miðsvæðis og vera snöggir í allar áttir.

Hið 28 hæða Fairmont Royal York hótel í miðborg Toronto var hæsta bygging Kanada þegar hótelið opnaði fyrir 85 árum síðan. Nú eru húsin í kring flest álíka há eða hærri en ekkert þeirra er eins virðulegt og þessi glæsilega bygging í hjarta borgarinnar. Þetta er ógnarstórt hótel með á annað þúsund gistiherbergi, nokkra veitingastaði, sundlaug og fleira. Stærðar sinnar vegna stoppar flugvallarrútan við hótelið og það er mikill kostur.

Um þessar mundir er verið að taka hluta hótelsins í gegn en þó verða gestirnir ekki fyrir ónæði. Alla vega ekki útsendari Túrista sem gisti nýverið á hótelinu.

Herbergin

Það leynir sér ekki þegar komið er inn á þetta hótel að tískustraumar síðustu áratuga hafa ekki náð inn fyrir hússins dyr. Þetta er sögufræg bygging og innréttingarnar og mubblurnar eru í klassískum stíl. Eins og gefur að skilja er sumt er farið að láta á sjá en herbergin eru þrifaleg og rúmin þægileg. Baðherbergin flest með baðkari en ekki sturtuklefa.

Staðsetning

Hótelið er við aðallestarstöð borgarinnar og þaðan fer líka metrólest. Þeir sem vilja nýta almenningssamgöngur eru því vel settir hér. En þar sem metrókerfi borgarinnar takmarkast við ferðalög milli norður og suðurs þarf að taka sporvagna í hinar áttinar eða leigubíla. Þeir sem vilja sjá sem mest af borginni ættu því að halda til á þessu svæði því stutt er í CN Tower, íþróttaleikvanga og hafnarsvæðið. Eins er mikið af ágætis veitingastöðum í háhýsabyggðinni.

Ef lífleg hverfisstemning er meira heillandi þá er óhætt að mæla með gistingu á vesturhluta Queen strætis.

Verðið

Ódýrustu herbergin eru á kringum 200 kanadíska dollara (rúmar 20 þúsund íslenskar) sem er ágætlega sloppið fyrir hótel í milliklassa í Toronto. Það er ókeypis internet í lobbíinu en það þarf að kaupa aðgang á herbergjunum.

Sjá heimasíðu Fairmont Royal York

TENGDAR GREINAR: Tveir dagar í TorontoVegvísir Toronto