Kannabis kann að auka ferðamannastrauminn til Kólóradó

Nú má kaupa marijúna út í búð í Kólóradó og það er því ekki lengur bannað að hafa efnin á sér. Nema á flugvellinum í Denver.

Um áramót hóf fjöldi verslana í Kólóradó fylki í Bandaríkjunum að selja marijúana en þá gengu í gildi ný lög í fylkinu sem leyfa sölu á kannabisefnum til upplyftingar en ekki aðeins til lækninga. Kólóradó er fyrsta fylkið vestanhafs til að taka upp svo frjálslyndar reglur. Samkvæmt frétt Rúv þá mega heimamenn kaupa 28 grömm í einu en aðkomufólk aðeins 7 grömm. Efnisins má aðeins neyta í heimahúsum og reykstofur að hollenskri fyrirmynd munu því ekki opna í fylkinu.

Bann á flugvellinum

Þrátt fyrir þessar takmarkanir þá reikna yfirvöld með því að nýju reglurnar muni auka ferðamannastrauminn til Kólóradó og óttast um leið að margir muni reyna að flytja kannabis þaðan til annarra fylkja í Bandaríkjunum. Á flugvellinum í Denver hefur því verið sett á algjört bann við því að hafa marijúna meðferðis öfugt við aðra opinbera staði í fylkinu samkvæmt frétt Denver Post. Icelandair flýgur til Denver allt árið um kring.

Líka í Washington innan skamms

Nýju lögin í Kólóradó stríða gegn bandarískum alríkislögum en stjórn Obama forseta hefur heitið því að gefa fylkjunum fullan rétt til að setja sér eigin reglur í þessum málum. Síðar á árinu munu íbúar Washington fylkis einnig fá leyfi til að fara út í búð til að kaupa sér kannabis. Maríiúna verður áfram aðeins leyft í lækningarskyni í 18 öðrum fylkjum Bandaríkjanna.

Bjórborgin Denver

John Hickenlooper, fyrrum borgarstjóri Denver og núverandi fylkisstjóri Colorado hóf feril sinn sem bareigandi og bruggari í Denver. Ölið hann sló svo rækilega í gegn að hann rúllaði fyrst upp kosningum til borgarstjóra (87% atkvæða) og svo til fylkisstjóra. Ferðamálayfirvöld í Denver eru nú farin að markaðssetja borgina sem áfangastað fyrir vandláta bjórþambara eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

TENGDAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúrunaSjarmatröllið í Denver sem Starbucks á ekki roð í

Mynd: Visit Denver