Miklu fleiri Íslendingar til útlanda í desember

Það flugu tæplega sjö þúsund fleiri íslenskir farþegar til útlanda á síðasta ári í samanburði við árið á undan. Aukningin var langmest í jólamánuðinum.

Allar götur frá árinu 2008 hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað jafnt og þétt. Á síðasta ári fóru 364.912 íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Nemur viðbótin frá árinu á undan tæpum tveimur prósentum. Mesta aukningin varð í desember en þá fjölgaði ferðum Íslendinga um nærri fimmtán af hundraði og fóru þá rúmlega 24 þúsund farþegar með íslensk vegabréf til útlanda.

Flestir út í október

Ferðagleði landans var mikil á síðasta ársfjórðungi og fjölgaði reisunum einnig í október og nóvember. Hins vegar fækkaði utanlandsferðunum alla sumarmánuðina og var október sá mánuður sem flestir nýttu til ferðalaga til annarra landa. Fóru tæplega 38 þúsund íslenskir farþegar út í þeim mánuði sem er um tvö þúsund fleiri en í ágúst sem var næst vinsælasti ferðamánuðurinn.

Er þetta í fyrsta skipti sem júní, júlí eða ágúst skipa ekki efsta sætið samkvæmt talningu Ferðamálastofu sem nær tíu ár aftur í tímann.

VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
NÝTT: Wow Air nálgast Iceland Express
TILBOÐ: 3ja nóttin frí í Edinborg

Mynd: Isavia