Ódýrara fyrir íslenska túrista í útlöndum

Íslenska krónan hefur styrkst undanfarið og í samanburði við gjaldmiðla Noregs og Kanada þá hefur hún eflst um fimmtung.

Nú er sá tími sem margir bóka utanlandsferðir sumarsins og það er ánægjulegt að gengi krónunnar er hagstæðara í dag en á sama tíma í fyrra. Núna borgar íslenskur kreditkortahafi um tíu prósent minna fyrir hótel í London, Washington eða París. Sama gildir um bílaleigubíla ef við gerum ráð fyrir að verðlagið í þessum löndum hafi haldist stöðugt.

Ánægjulegast er hins vegar að sjá þróun mála í Kanada og Noregi. Það lætur nefnilega nærri að gjaldmiðlar þessara landa hafa lækkað um fimmtung í samanburði við íslensku krónuna síðustu mánuði. Sem dæmi má nefna að í janúar í fyrra sagði Túristi frá því að þriggja daga skíðakort í Oslo Vinterpark kostaði um 25 þúsund íslenskar krónur. Kortið er núna á 17.500 kr. Par sem sest inn á hinn huggulega Le bistro Selection í Toronto borgar um 1500 krónum minna fyrir kvöldmatinn nú en fyrir nokkrum mánuðum síðan og aðgangseyrir að hinu áhugaverða safni Art Gallery Ontario hefur lækkað um 300 íslenskar. Það munar um minna og sennilega geta einhverjir hagsýnir reiknað út að það margborgi sig að fara til útlanda núna.

Eins og gefur að skilja er ekki horft til gengisins árið 2007 í þessari samantekt.

VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
TILBOÐ: 25% afsláttur í London3ja nóttin frí í Edinborg

Mynd: Heidi Thon/Oslo Vinterpark