Ósammála um vægi Samkeppniseftirlitsins

Forstjóri Wow Air segir forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar vernda hagsmuni Icelandair með því að verða ekki við úrskurði Samkeppnisstofnunnar. Deilan er tilkomin vegna plássleysis við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Ekki er víst að nokkuð verði úr áætlunum Wow Air um flug til Bandaríkjanna í ár samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag. Ástæðan er sögð vera sú að Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fallist á kröfu Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, um að fresta réttaráhrifum úrskurðar Samkeppnisstofnunnar. En stofnunin komst að þeirri niðurstöðu í byrjun nóvember að Wow Air ætti að fá tvo afgreiðslutíma að morgni og seinnipart dags fyrir flug til Bandaríkjanna. Isavia og Icelandair kærðu þá niðurstöðu.

Í tilkynningu Isavia frá þeim tíma kemur fram að stjórnendum þess sé ekki heimilt að grípa inn í úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli þar sem hún sé framkvæmd af óháðum, alþjóðlegum aðila. Sá aðili er fyrirtækið Airport Coordination i Danmörku. Í samtali við Túrista í dag staðfestir framkvæmdastjóri þess, Frank Holton, að tímum sé úthlutað samkvæmt reglum IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga og Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. að fram að ekki megi taka afgreiðslutíma af flugfélagi til að hleypa nýjum aðila að.

Frank Holton segir að Ísland sé aðili að þessum samningi og samkeppnisyfirvöld í einu landi geti ekki úrskurðað þvert á efni samkomulagsins. Þessu eru forsvarsmenn Wow Air ekki sammála. Í svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow Air, við fyrirspurn Túrista, segir að það sé skýrt í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Isavia geti og beri að afhenda WOW air tiltekna afgreiðslutíma. „Innlend samkeppnislög og þjóðarhagsmunir vega ávallt þyngra heldur en alþjóðleg bókunarkerfi,“ segir jafnframt í svarinu. Frank Holton telur það ekki standast og vísar í að fluggeirinn sé alþjóðlegur iðnaður sem erfitt væri að starfrækja ef reglur í hverju landi fyrir sig myndu vega þyngra en alþjóðlegar samþykktir.

50 mínútna munur

Svanhvít segir að til að byrja með hafi ætlunin verið að fljúga sex sinnum í viku til Boston. En félagið sótti upphaflega um afgreiðslutíma fyrir flug til New York og Boston. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia fékk Wow Air tíma fyrir flug til Boston klukkan 17:40 en hafði beðið um tíma fimmtíu mínútum fyrr. Ástæðan er skortur á brottfararhliðum fyrir flug til landa utan Schengen á háannatímum.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
NÝJAR GREINAR: 10 ráð fyrir flughrædda