Rómantísk fjölskylduferð

Það er óþarfi að láta Toskana bíða þar til að börnin eru flogin úr hreiðrinu. Ríkulegur skammtur af ítölskum mat og ís, auk reglulegra baðferða, ætti að kaupa foreldrunum nægan tíma til að gera hæðóttum þorpum og sögufrægum borgum góð skil.

Það er sennilega óhætt að fullyrða að þeir sem aldrei hafa heimsótt Toskana á Ítalíu séu á leiðinni þangað og að þeir sem þekkja svæðið geti varla beðið eftir að komast þangað á ný. Að keyra meðfram sólblómum og sítrústrjám í átt að fallegum virkisbæ er alveg eins sjarmerandi og maður hafði ímyndað sér það vera.

En ólíklega yrði ferðalag um sveitir Toskana fyrir valinu ef börn og unglingar fengju að ráða. En þar kemur matarmenning heimamanna foreldrunum til hjálpar því á Ítalíu þarf engin að skammast sín fyrir að bjóða upp á pizzur, pasta og kúluís í næstum öll mál. Nálægð við strönd eða sundlaug hjálpar líka til (sjá hér neðar).

Nokkurra ferða virði

Árlega leggja um fjórtíu milljónir ferðamanna leið sína til Toskana héraðs. Þetta er fráhrindandi tala því sjarmi staðarins hverfur ef heimamenn eru hvergi sjáanlegir. En blessunarlega er það ekki bara aðkomufólk sem er á ferðinni á vinsælus

tu slóðum túrista í Toskana. Þar er því auðvelt að finna veitingastaði sem gera ekki út á ferðamenn og jafnvel yfir hásumarið er hægt að hafa falleg húsasund, kirkjur og torg út af fyrir sig í stundarkorn. Borgirnar Flórens, Pisa og Síena eru kannski undantekning frá þessu og þar af leiðandi ekki eins barnvænar. En í þekktum bæjum eins og Píenza, Arezzo og Massa Marittima fer furðulega lítið fyrir ferðamönnum og á kvöldin fjölmenna íbúarnir út á torg og taka börnin með sér og stemningin því mjög afslöppuð.

Toskana er rúmir tuttugu þúsund ferkílómetrar að stærð og það ómögulegt að gera öllu skil í einni ferð. Foreldranir geta því átt helling inni fyrir ferðalag til héraðsins þegar börnin eru ekki lengur með.

Tvö góð en gjörólík hótel fyrir fjölskyldur í Toskana: