Sjarmaherferð Ryanair

Forsvarsmenn stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu hafa nú með jöfnu millibili kynnt betrumbætur á þjónustunni og lægri aukagjöld.

Forstjóri Ryanair viðurkenndi á síðasta ári að félagið þyrfi að bæta þjónustu sína á mörgum sviðum. Í kjölfarið hætti írska félagið að rukka fyrir snjallsímaforrit fyrirtækisins, heimasíðan var tekin í gegn og farþegum var heimilt að taka aukalega með sér lítinn poka eða tösku í handfarangri. Áður þurfti allur handfarangur að komast í eina tösku, þar með taldir fríhafnarpokar, dagblöð og tölvur.

Hátt farangursgjald

En það er ekki bara þjónustan sem á að batna því kaup á aukaþjónustu verður ódýrari í einhverjum tilfellum. Félagið hefur til að mynda lækkað farangursgjald sitt á flugvöllum um helming en gjaldið fyrir netbókun á töskum er óbreytt. Farþegar írska flugfélagsins greiða á bilinu 15 til 60 evrur (2300-9400 krónur) fyrir innritaðar töskur og ræðst verðið af þyngd og árstíma. Þetta er nokkru hærra verð en önnur lággjaldaflugfélög rukka og afleiðing er sú að aðeins fimmti hver farþegi félagsins innritar farangur. Himinhá þóknun vegna útprentunar á brottfararspjöldum var líka lækkuð.

Ætla að gera eins og aðal keppinauturinn

Forsvarsmenn Ryanair munu einnig að feta í fótspor Easy Jet og leyfa fólki að taka frá sæti í allri vélinni gegn greiðslu. En hingað til hefur félagið boðið fólki upp á að bóka fremstu fimm sætaraðirnar eða borga fyrir að komast fyrst inn í vélina. En eins og Túristi kannaði í sumar þá er allur gangur á því hversu hátt hlutfall sætanna er tekinn frá eftir því hvort flogið er héðan með Wow Air eða Easy Jet. Það er því ekki víst að það borgi sig alltaf að borga fyrir þessa þjónustu.

ÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG

NÝJAR GREINAR: Lægsta verðið þegar engin samkeppni er um farþegana