Styttist í úrslitastund á Keflavíkurflugvelli

Tíminn vinnur ekki með stjórnendum íslensku flugfélaganna sem bíða eftir úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þangað til ríkir óvissa með flug til N-Ameríku.

Í byrjun nóvember fór Samkeppnisstofnun fram á það við Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, að Wow Air fengi afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að hefja áætlunarflug til Boston og New York í sumar. Í dag eru engin brottfararhlið á lausu í Keflavík yfir aðalferðamannatímann til að sinna flugi til og frá löndum utan Schengen svæðisins að morgni og seinnipartinn. Isavia áfrýjaði úrskurðinum og sagði í tilkynningu frá félaginu að úthlutunin sé framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og telja forsvarsmenn Isavia að þeim sé ekki heimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krefst. Icelandair kærði einnig niðurstöðuna.

Fengu ekki umbeðna tíma

Skömmu síðar var skipting afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir næsta sumar gerð opinber. Hún var ekki í takt við niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og fékk Wow Air til að mynda ekki þá tíma sem félagið óskaði eftir fyrir flug til Bandaríkjanna. Sömu sögu er að segja af flugi Icelandair til Edmonton og Vancouver í Kanada.

Eftir tvær vikur eiga stjórnendur flugfélaganna að staðfesta að þeir ætli að nota þá tíma sem félögin fengu. En ekki er víst hvort áfrýjunarnefnd samkeppnismála nái að kveða upp sinn úrskurð fyrir þann tíma samkvæmt svari frá nefndinni. Það stefnir því í að núverandi óvissuástand muni vara fram til loka mánaðarins og jafnvel lengur eftir því hvaða niðurstöðu áfrýjunarnefndin kemst að.

Vilja ekki tjá sig

„Okkar plön fyrir flugið til Edmonton og Vancouver eru óbreytt og við vonum að þetta leysist farsællega fyrir mánaðamót með sem minnstum óþægindum fyrir okkar farþega“, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um stöðuna sem komin er upp. En félagið hóf sölu á farmiðum til kanadísku borganna í haust. Forsvarsmenn Wow Air vilja hins vegar ekki tjá sig um flug félagsins til Bandaríkjanna þegar eftir því var óskað. Félagið hefur ekki ennþá hafið sölu á ferðum vestur um haf þó aðeins séu nokkrir mánuðir í að flugið eigi að hefjast miðað við yfirlýsingar stjórnenda félagsins í vetur.

VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
TILBOÐ: 3ja nóttin frí í Edinborg

Mynd: Isavia