Tekur ekki undir gagnrýni á Isavia

Fyrrum forstjóri Iceland Express undrar sig á deilunni sem komin er upp um flugtíma á Keflavíkurflugvelli. Norsk yfirvöld, öfugt við íslensk, töldu sig ekki geta úrskurðað í samskonar máli á sínum tíma.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrum forstjóri Iceland Express, segir það ekki sína reynslu að starfsmenn Isavia standi vörð um hag Icelandair. En í tilkynningu frá Wow Air í fyrradag sakar Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar um „vernda hagsmuni og einokun Icelandair“. Vísar hann þar til áfrýjunar Isavia á úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem fór fram á að Wow Air fengi afgreiðslutíma á vellinum til að hefja flug til Bandaríkjanna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála er nú með málið á sinni könnu og hefur nefndin frestað réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins. Það hefur sett Ameríkuflug Wow Air í uppnám samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins.

Í morgunútvarpi Rásar 2 í gær hélt Skúli Mogensen því fram að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefði komist að þeirri niðurstöðu að yfirvöld hefðu leyfi til að úthluta flugtímum til nýrra flugfélaga til að tryggja samkeppni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Túristi fékk hjá ESA þá hefur samkonar mál ekki komið á borð stofnunarinnar.

Fengu sömu tíma og Iceland Express

Wow Air óskaði eftir brottfarartíma fyrir flug til Boston klukkan 16:40 en fékk klukkan 17:50. Það er sami tími og Iceland Express hafði fyrir flug til Boston og New York árið 2011. Skarphéðinn Berg Steinarsson segir að þessir flugtímar hafi ekki reynst Iceland Express erfiðir. Hann segir að ákveðið samhengi verði að vera í flugáætluninni og Iceland Express flutti því morgunflug sín til Evrópu frá sjö að morgni til klukkan hálf níu þegar félagið hóf flug til N-Ameríku. Wow Air yrði að gera samskonar breytingar miðað við núverandi stöðu. Skarphéðinn segir að þessar breytingar á flugtímum hafi verið gerðar í samstarfi við Icelandair og Isavia á sínum tíma, t.a.m. hafi Icelandair flýtt sínum ferðum. Hann undrar sig á að þessi aðilar geti ekki fundið lausn á þessu máli núna.

Norsk yfirvöld ekki sammála

Fyrir um áratug síðan kom upp álíka deila milli Norwegian, SAS og norskra flugmálayfirvalda um afgreiðslutíma á norskum flugvöllum. Fred Andreas Wister sér um að samræma flugtíma í Noregi og hann segir í samtali við Túrista að yfirvöld þar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau gætu ekki beitt sér í málinu því úthlutun tíma væri hluti að evrópskum reglum. En EES-réttur vegur þyngra en innlendar reglugerðir. Norwegian þurfti því að fara á biðlista í einhverjum tilvikum en annars nota þá tíma sem í boði voru. Síðan þá hefur Norwegian vaxið hratt og er nú þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?