Telja að koma Wow Air marki tímamót

Áætlunarflug Wow Air til Bandaríkjanna er talið meðal þeirra atriða sem muni valda mestum breytingum á flugmarkaðinum vestanhafs í ár.

Hraðari vopnaleit, betra netsamband í háloftunum og minni sæti eru meðal þeirra atriða sem blaðamenn eins vinsælasta ferðatímarits heims, CN Traveler, telja að muni einkenna flugsamgöngur vestanhafs í ár. Þeir sjá líka fram á ódýrari fargjöld til Evrópu með tilkomu lággjaldaflugfélaganna Norwegian og Wow Air.

Segir í grein á heimasíðu blaðsins að félögin tvö ætli sér að nota sparneyttar vélar í flugið yfir hafið og forsvarsmenn félaganna hafi sagt að þeir geti því boðið ódýrari farmiða. Ameríkuflug Norwegian hófst á síðasta ári en hefur gengið brösuglega vegna tíðra bilanna Dreamliner þota félagsins.

Boston í vor en ólíklega til New York

Eins og Túristi greindi frá í síðustu viku þá hafa bandarísk flugmálayfirvöld samþykkt umsókn Wow Air um leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna. Ekki liggur þó fyrir hvenær félagið hefur sölu á farmiðum en forstjóri félagins hefur áður sagt að flug til Boston eigi að hefjast í vor. Til samanburðar má geta að þegar Iceland Express hóf flug til New York sumarið 2010 þá hófst sala á miðum haustið á undan.

Wow Air sótti um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug til Boston og New York í sumar en samkvæmt heimildum Túrista þá voru ekki lausir tímar á Newark flugvelli, í nágrenni New York, fyrir flug Wow Air. Það er því ólíklegt að félagið getið boðið upp á ferðir þangað í ár.

VINSÆLT: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim

Mynd: Wow Air