Vannýtt tækifæri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Af þeim sautján flugfélögum sem bjóða upp á áætlunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli þá eru aðeins tvö sem gera farþegunum kleift að innrita sig sjálfa í flugstöðinni. Þessu er öfugt farið á flugvöllum nágrannaþjóðanna þó forsvarsmenn Isavia leggi áherslu á að sem flestir flugrekendur nýti sér tæknina til að bæta afköstin.

Bróðurpartur flugfélaganna sem fljúga til Kastrup hefur tengst sjálfsafgreiðslustöðvum Kaupmannahafnarflugvallar og stór meirihluti farþeganna innrita sig sjálfir í flug samkvæmt upplýsingum frá danska flugvellinum.

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er staðan önnur því aðeins Delta og Icelandair nýta sjálfsagreiðslustöðvar í brottfararsalnum. Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að önnur félög kjósi að bjóða ekki slíka þjónustu þrátt fyrir ábendingar þar um. „Isavia telur að sjálfsinnritun veiti skilvirkari og betri þjónustu auk þess að bæta afköst flugstöðvarinnar og leggur áherslu á að sem flestir flugrekendur nýti sér þennan valkost líkt og raunin er víða erlendis, t.d. í Kaupamannahöfn,“ segir Friðþór og bætir því við að Isavia taki ekki gjald fyrir notkunina.

Hafa ber í huga að Icelandair stendur fyrir miklum meirihluta ferða til og frá landinu og þorra farþega í Kefavík stendur því þjónustan til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair nýtir meira en helmingur farþega sér sjálfsafgreiðslustöðvar eða netsíðu félagsins til að tékka sig inn.

Lögðu niður innritunarborðin

Þeir sem fljúga með Easy Jet eiga að innrita sig á netinu og prenta út brottfararspjöld áður en þeir mæta út á flugvöll. Félagið hætti í vor að innrita við afgreiðsluborð og farþegarnir verða því allir með tölu að tékka sig inn á netinu og prenta út brottfararspjöld að lágmarki tveimur tímum fyrir brottför.

Wow Air hefur hingað til aðeins boðið upp á innritun við afgreiðsluborð en Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, segir að búist sé við því að farþegar félagsins geti nýtt sér sjálfsafgreiðsluna í Keflavík síðar á þessu ári.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
NÝJAR GREINAR: 10 ráð fyrir flughrædda