Wow Air nálgast Iceland Express

Farþegum Wow Air fjölgar hratt og ef áætlanir forsvarsmanna félagsins ganga eftir verður félagið stærra í ár en Iceland Express náði að verða þegar umsvif þess voru hvað mest.

Það flugu 112.223 farþegar með Wow Air á fyrsta starfsári félagsins í hittifyrra samkvæmt tilkynningu frá félaginu í gær. Áður hafði komið fram á mbl.is að farþegar hafi verið 90 þúsund á þessu fyrsta ári. Jómfrúarflug Wow Air var farið í byrjun sumars 2012 og það hafa því um 16 þúsund farþegar á mánuði flogið með félaginu í hittifyrra. Farþegafjöldinn rúmlega tvöfaldaðist í fyrra því þá fóru 412.583 farþegar með félaginu eða rúmlega 34 þúsund á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow Air, eru farþegar í leiguflugi með í þessum tölum. Forsvarsmenn Wow Air höfðu ráðgert að farþegar yrðu 450.000 í ár eins og kom m.a. fram á Vísir.is.

Um hálf milljón farþega

Árið 2011 hélt Iceland Express úti flugi til N-Ameríku og fór til að mynda 618 ferðir í júlí það ár samkvæmt talningu Túrista. Þá kom fram í fréttatilkynningu að 359.933 farþegar hafi farið með félaginu á fyrstu átta mánuðum ársins, eða um 45 þúsund á mánuði. Matthías Imsland, þáverandi forstjóra félagins, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið skömmu áður að gert væri ráð fyrir að farþegar yrðu hálf milljón talsins árið 2011. Ekki liggja þó fyrir neinar upplýsingar um uppgjör á farþegafjölda Iceland Express það ár en í frétt Rúv um kaup Wow Air á rekstri Iceland Express segir að farþegar þess síðarnefnda hafi verið tæplega hálf milljón árið 2011.

Fram úr á þessu ári

Haft hefur verið eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow Air, að í ár sé gert ráð fyrir að farþegar félagsins verði 600 til 720 þúsund talsins. Gangi það eftir verður félagið mun umsvifameira, í farþegum talið, en Iceland Express var á sínum tíma.

TENGDAR GREINAR: Wow Air fær leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna
VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl

Mynd: Wow Air