Á netið hjá Icelandair

Nú er hægt að komast í netsamband í stórum hluta flugflota Icelandair. Túristi prófaði þjónustuna.

Samband fólks við netið er orðið það náið að jafnvel í háloftunum stendur til boða að tengjast því. Vestanhafs hafa farþegar um árabil getað borgað fyrir aðgang að netsambandi en þróunin hefur verið hægari innan Evrópu.

Hjá Icelandair er nú unnið að því að setja upp þráðlausan búnað í þoturnar og verður félagið eitt af þeim fyrstu í Evrópu til að netvæða allan flotann sinn samkvæmt því sem Túristi kemst næst.

Um borð í um helmingi vélanna er nú þegar hægt að nýta sér þessa nýju þjónustu og prófaði útsendari Túrista hana um daginn. Það er skemmst frá því að segja að þessi nýbreytni lofar góðu. Sambandið var virkt á meðan vélin flaug í fullri hæð og slitnaði aldrei. Tengingin er nógu hröð fyrir tölvupósta, heimasíður með stórum myndum og þar sem hún er stöðug er hægt að uppfæra heimasíður eins og þessa hér og hlusta á músík af netinu.

Það er tekið fram í vélum Icelandair að tengingin henti fyrir almenna netnotkun en síður fyrir þunga vinnslu. Farþegar ættu því ekki að reikna með því að geta streymt kvikmyndir eða sent stórar skrár niður úr háloftunum. Netið hjá Icelandair er því sambærilegt við það sem er í boði hjá flugfélögum og lestarfyrirtækjum sem hafa ráðist í að gera farþegum kleift að drepa tímann á ferðalaginu á netinu.

Túristi borgaði 9 evrur (um 1400 krónur) fyrir að aðganginn og gildir hann fyrir eitt tæki. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair verður verðið á þessari þjónustu breytilegt. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að viðtökur farþega hafi verið mjög jákvæðar en enn séu hnökrar á þjónustunni og unnið er að því að auka öryggi tengingarinnar.

Reiknað er með að vinna við að netvæða allan flugflotann ljúki þegar líður á árið.