Dugar Facebook til að ná til strandaðra farþega?

Nærri þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru á Facebook og sennilega gætu íslensku flugfélögin gert meira í því að koma skilaboðum til farþega í gegnum þennan miðil.

Nýverið hafa vélar frá Icelandair og Wow Air tafist í sólarhring eða meira í útlöndum. Fréttir af þessum löngu seinkunum hafa ratað á síður stærstu fjölmiðla landsins og í báðum tilvikum kvarta farþegarnir yfir skorti á upplýsingum frá flugfélögunum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fólk í þessum aðstæðum lætur samskiptaleysið að hálfu flugfélaganna fara í taugarnar á sér og í ljósi þess hve margir Íslendingar, og auðvitað útlendingar, eru á Facebook vekur það nokkra furðu að ekkert er minnst á þessi tvö tilfelli á Facebook síðum félaganna. Ástæðan er kannski sú að starfsmenn þeirra vilja síður viðurkenna opinberlega að þeir viti ekki hversu löng töfin verður. En sennilega er það þó mun skárri kostur en sá að reita farþeganna til reiði og fá neikvæða umfjöllun. Því líklega eru allir farþegar meðvitaðir um að flugvélar geta bilað og að vont veður setur oft strik í reikninginn. Fólk hefur því ákveðinn skilning á stöðunni en þarf að fá fylgjast með.

Þó félögin reyni jafnvel að senda sms eða tölvupósta til farþeganna þá væri færsla á Facebook góð viðleitni í að koma upplýsingum á framfæri til strandaglópa, bæði íslenska og erlenda, jafnvel þó það þýði að alþjóð geti fylgst með vandræðunum. Í dag rata hvort eð er fréttir af mjög löngum töfum í alla mest lesnu fjölmiðla landins.

Hægt að læra af Hollendingum

Þegar Eyjafjallajökull stöðvaði flugumferð í Evrópu vorið 2010 þá áttuðu forsvarsmenn hollenska flugfélagsins KLM sig á því að Facebook var kjörinn vettvangur til að koma upplýsingum til farþega. Í dag er félagið því með 130 starfsmenn í vinnu við að svara fyrirspurnum frá farþegum á Facebook og Twitter og reglan er sú að öllum skuli svarað innan klukkutíma. En félagið fær 35 þúsund spurningar á þessum síðum í hverri viku samkvæmt frétt Politiken.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?