Fína borgin við vatnið

Það er löng hefð fyrir því að stilla til friðar í Genf. Það eru þó ekki íbúarnir sem láta svona illa enda er borgin vanalega í einu af efstu sætunum yfir lífvænlegustu þéttbýli jarðar. Næsta sumar hefst beint flug frá Keflavík til borgarinnar.

Við bakka Genfarvatns standa reisulegar byggingar sem hýsa fimm stjörnu hótel, frægar úrabúðir og fína veitingastaði. Í hæðunum fyrir ofan eru svo dýrustu villur álfunnar. Vatnið sjálft er þó leikvöllur allra borgarbúa. Á sumrin svamla þar allir saman og á veturna hittist fólk af öllum stéttum í gufubaðinu á La Buvette des Bain, bryggjunni sem gengur út í vatnið.  Þaðan er líka fallegt útsýni til fjalla en allir tindar sem sjást frá Genf, þar á meðal Mont Blanc, eru hinum megin við landamærin.

Ókeypis samgöngur

Þrátt fyrir ríkidæmið þá getur venjulegt fólk notið lífsins í þessari fallegu borg þar sem 0,2 prósent íbúanna eiga Ferrari, Porsche eða Rolls Royce. Það kostar til að mynda minna að setjast á útikaffihús á Bourg-de-Four í gamla bænum en við Gammel Strand í Köben eða Gamla Stan í Stokkhólmi. Aðgangur að nýlistinni á Mamco safninu er ódýrari en að Hafnarhúsinu og í Genf fá allir hótelgestir passa sem gildir í sporvagna, strætó og bátanna sem skutla fólki yfir vatnið. Lestin til og frá flugvellinum er einnig í boði borgarstjórnar. Það væri óskandi að fleiri sveitarfélög tækju upp þennan sið.

Gjörólíkir nágrannar

Íbúar Genfar urðu um langt skeið að lifa gleðisnauðu lífi að hætti Kalvínista. Fólkið gat þó komist út fyrir múranna af og til og þá var haldið í nærliggjandi þorp þar sem lífsins lystisemda var notið í óhóflegu magni áður en grár hversdagsleikinn í Genf tók við á ný. Þó lokaðar búðir og veitingastaðir á sunnudögum séu sennilega það eina sem eftir er af ströngum lífsreglum frá fyrri tíð þá nýtur nágrannasveitarfélagið Carouge enn mikilla vinsælda meðal borgarbúa sem vilja skipta um umhverfi. Þekktustu arkitektar Ítala voru fengnir til að reisa þennan kaþólska bæ í lok átjándu aldar og tekur aðeins nokkrar mínútur að taka sporvagn þangað frá miðborg Genfar. Sá stutti útidúr er tímans virði.

Icelandir hefur flug til Genfar í sumar og þá gefst íslenskum ferðamönnum betra aðgengi að heimaborg Rauða krossins, Genfarsáttmálans og Sameinuðu þjóðanna. Svissneskar og franskar nærsveitir þessarar glæsilegu borgar er ekki síður spennandi og er jafnvel hægt að gera þeim góð skil í dagsferðum. Þá nýtist lestarpassinn sem gestir borgarinnar fá vel því hann gildir í sumum tilfellum þegar komið er út fyrir borgarmörkin.

Sjá vegvísi Túrista fyrir Genf

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?