Auka framboð á sólarlandaferðum um fjórðung

Upphaflega ætluðu forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar að selja Íslendingum tvö þúsund ferðir til Tyrklands í sumar. Viðtökurnar hafa hins vegar verið það góðar að rúmlega fimm hundruð sætum verður bætt við í ágúst.

„Ísland er besti markaður okkar um þessar mundir,“ segir Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri norrænu ferðaskrifstofunnar Nazar. Ástæðuna segir hann vera þá að sölumarkmiðin hafi náðst mun hraðar hér á landi en á öðrum markaðssvæðum. Þremur ferðum frá Keflavík til Antalya í Tyrklandi verður því bætt við dagskrá Nazar í ágúst og þar með eykst framboð ferðaskrifstofunnar um rúmlega fjórðung á íslenska markaðnum.

Nazar hefur sérhæft sig í Tyrklandsreisum frá Skandinavíu og Finnlandi síðustu tíu ár en hóf starfsemi hér á landi í nóvember síðastliðnum. Ferðaskrifstofan er í eigu TUI samsteypunnar sem er einn umsvifamesti ferðaskipuleggjandi í heimi.

Íslenska Facebook síðan flýgur fram úr

Kemal segir að undirtektirnar á Íslandi hafi verið mjög góðar og nefnir sem dæmi að þó félagið hafi starfað hér í skamman tíma þá sé íslenska Facebook síða Nazar sú næstvinsælasta hjá fyrirtækinu. Einnig hafi fjölmargir haft samband og líst yfir ánægju með að félagið ætli að bjóða upp á íslenska fararstjóra og krakkaklúbba á áfangastöðum sínum í sumar. Að mati Kemal hjálpar það einnig að fleiri íslenskar ferðaskrifstofur bjóði upp á sólarlandaferðir til Tyrklands því þá fái landið meiri athygli. Vita, Sumarferðir og Heimsferðir verða allar með pakkaferðir til Bodrum og Marmaris í Tyrklandi í sumar samkvæmt lauslegri könnun Túrista.

Eins og kom fram í viðtali Túrista við Kemal í lok síðasta árs þá ætlar félagið sér að vaxa hratt á íslenska markaðnum og fimmfalda söluna á þremur árum. Farþegar ferðaskrifstofunnar verða þá um tíu þúsund talsins en þess má geta að 106 þúsund íslenskir farþegar flugu frá Keflavíkurflugvelli yfir sumarmánuðina í fyrra.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDON3JA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: SVONA BORGAR ÞÚ MIKLU MINNA FYRIR BÍLALEIGUBÍL