Fleiri til Köben og Stokkhólms en færri til Oslóar

Af höfuðborgum Skandinavíu þá nýtur Kaupmannahöfn langmestrar hylli meðal íslenskra ferðamanna. Mikill munur er á því hvernig Íslendingar dreifast um Noreg, Svíþjóð og Danmörku.

Það eru þrjú flugfélög sem fljúga héðan til Oslóar og verðkannanir Túrista hafa endurtekið sýnt að það kostar minna að fljúga þangað en til Kaupmannahafnar og London. Þrátt fyrir það þá fækkaði gistinóttum Íslendinga í höfuðborg Noregs í fyrra um fimm af hundraði í samanburði við árið á undan samkvæmt tölum hagstofunnar þar í landi.

Íslenskum hótelgestum í Noregi fjölgaði þó um 16 prósent á síðasta ári og aðeins sjötti hver Íslendingur, sem heimsækir Noreg, gistir í höfuðborginni. Í Svíþjóð gistir annar hver Íslendingur í Stokkhólmi og í Danmörku dvelja átta af hverjum tíu íslenskum ferðamönnum á hótelum á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Langflestir til Kaupmannahafnar

Það er flogið til fjögurra flugvalla í Noregi og það kann að vera ástæðan fyrir því að íslenskir ferðalangar dreifast svo víða um landið á meðan þeir halda sig aðallega við höfuðborgirnar í Svíþjóð og Danmörku. En í þeim löndum er aðeins í boði flug til tveggja flugvalla.

Í fyrra voru gistinætur okkar í Kaupmannahöfn 33.512 talsins, 9871 í Stokkhólmi og 5721 í Osló. En allar þessar borgir eru meðal vinsælustu flugleiðanna frá Keflavík.

ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
NÝTT: Fína borgin við vatnið