Lest í kjallaranum

Það gæti borgað sig að fljúga til meginlands Evrópu og taka svo lest en ekki flugvél áfram á áfangastað. Hér er fín heimasíða sem hjálpar við skipulagningu á lestarferðalögum.

Frá flugvellinum í París er hægt að komast víða í lest og það er oftar ódýrara en innanlandsflug. Mynd: Atout France/Pascal Gröboval
Lestir geta verið mjög þægilegur ferðamáti en því miður er ekki einfalt að finna út úr því hvert þær fara og hvað sætið kostar.

Á heimsíðu Raileurope.com er hins vegar að finna gagnlega leitarvél sem gerir fólki kleift að sjá hvert er farið frá hverri lestarstöð fyrir sig miðað við ákveðinn ferðatíma. Þar sést til dæmis að frá lestarstöðinni á Genfarflugvelli er hægt að komast tvisvar sinnum á klukkutíma í allar áttir innanlands og til nágrannalandanna. Frá Charles de Gaulle í París tekur um þrjá tíma að komast að suðvesturströndinni og þeir sem kjósa að fljúga til Mílanó geta séð hvernig best er að komast suður til Toskana. Á fleiri flugvöllum í Evrópu eru lestarstöðvar í kjallaranum og þannig hægt að komast hjá mannþrönginni sem oft einkennir aðallestarstöðvar stórborganna.

Leitarvélin er þó misgóð eftir löndum og líka þegar kemur að því að finna ferðir yfir landamæri en hún er samt sem áður ljómandi verkfæri fyrir þá sem vilja kanna möguleikana á því að þjóta áfram á jörðu niðri án þess þó að setjast við stýri.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?