Norwegian fær tíma fyrir flug til Kaupmannahafnar

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian gæti blandað sér í baráttuna um farþega á leið milli Íslands og Danmerkur í vor.

Á sumrin er flugleiðin til Íslands ávallt meðal þeirra tíu vinsælustu hjá farþegum í Kaupmannahöfn. Icelandair er með allt að tuttugu og sex ferðir á viku frá Keflavík til Kaupmannahafnar og Wow Air býður upp á morgunflug alla daga. Primera Air er einnig með stakar ferðir.

Samkeppnin á þessari leið eykst hugsanlega í vor því Norwegian, þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, hefur fengið úthlutaða afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir tvær ferðir í viku milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar.

Daniel Kirchhoff, talsmaður Norwegian í Danmörku, segir í samtali við Túrista að þó félagið hafi sótt um pláss á flugvellinum í Keflavík þá sé ekki víst að tímarnir verði nýttir. Hann segir Norwegian vera félag í örum vexti og skoði möguleika á nýjum áfangastöðum út um allan heim. Norwegian hefur undanfarin ár flogið hingað frá Osló þrisvar í viku og bætir í vor við flugi til Bergen.

Í haust sagði forstjóri Norwegian í viðtali við Túrista að honum þætti Ísland spennandi áfangastaður og hann gæti hugsað sér að fljúga hingað frá fleiri áfangastöðum.