Olíufurstar leggja á gistináttaskatt

Yfirbyggðar skíðabrekkur, neðansjávarhótel og heimsins hæsta bygging er meðal þess sem hefur komið Dubaí á kortið hjá ferðamönnum. Næsta stórverkefni verður hins vegar ekki fjármagnað með olíupeningum.

Hótelgestir í Dubaí þurfa að greiða 7 til 20 dirham (um 200-600 krónur) aukalega fyrir hverja nótt sem þeir gista í einu ríkasta ríki veraldar frá og með næsta mánuði. Aðdragandinn að þessari nýju skattheimtu mun ekki vera langur og er hluti teknanna eyrnamerktur framkvæmdum við undirbúning heimssýningarinnar Expo sem opnar í furstaríkinu í október árið 2020.

Meðal þess sem reisa á fyrir þann tíma er krókódíla- og safarígarður, módel af þekktum kennileitum og hefðbundinn fiskmarkaður.

Gert er ráð fyrir að ferðamönnum í Dubaí fjölgi um 11 prósent á þessu ári samkvæmt frétt Bloomberg.

Eins og Túristi greindi frá nýverið þá leggja sífellt fleiri borgir og lönd á sérstakan hótelskatt.