Rífleg hækkun á töskugjaldi

Forsvarsmenn Norwegian hækkuðu skyndilega verð á innrituðum farangri og fráteknum sætum um nærri helming í vikunni. Ekki er víst að þess háttar hækkanir minnki eftirspurnina eftir þjónustunni. Það er alla vega ekki reynsla Wow Air.

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian eykur umsvif sín hér á landi í vor með áætlunarflugi til Bergen og félagið hefur einnig fengið tíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug til Kaupmannahafnar. Þeir sem fljúga með Norðmönnunum héðan hafa hingað til þurft að borga 69 norskar krónur (1288 kr.) fyrir hverja tösku sem ekki kemst í farþegarýmið. Gjaldið hækkaði hins vegar í vikunni í 100 norskar (1866 kr.) og nemur breytingin um 45 prósentum.

Fleiri borga þó verðið hafi hækkað

Þrátt fyrir breytinguna þá er töskugjald Norwegian enn nokkru lægra en það er hjá Easy Jet og Wow Air. En af þeim fimm félögum sem fljúga frá Keflavík allt árið um kring þá rukka þessi þrjú aukalega fyrir innritaðan farangur. Hjá Easy Jet kostar ein stór taska á bilinu 2950 til 3400 krónur (19 til 22 evrur) en 3495 krónur hjá Wow Air.

Farangursgjald íslenska félagsins hækkaði um fimmtung í haust en þrátt fyrir það borga allt að 5 til 12 prósent fleiri farþegar á mánuði fyrir þessa þjónustu nú en áður samkvæmt upplýsingum frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúi Wow Air. Hún segir engar verðhækkanir vera fyrirhugaðar á aukaþjónustu félagsins.

ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
NÝTT: Fína borgin við vatnið