Samfélagsmiðlar

Segir Samkeppniseftirlitið leggja sér orð í munn

Í dag sendi Samkeppniseftirlitið frá sér tilkynningu vegna viðtals Túrista við fyrrum forstjóra Iceland Express. Hann segist þó ekki kannast við þau orð sem eftirlitið eignar honum.

Það eru þrír mánuðir síðan að Samkeppniseftirlitið úrskurðaði að Wow Air skyldi fá aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til að hefja flug til Bandaríkjanna á umbeðnum tímum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur hins vegar frestað réttaráhrifum úrskurðarins. Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air, sagði þá ákvörðun setja áform félagsins um flug til Bandaríkjanna í uppnám. Hann sakaði jafnframt Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, um að vernda hagsmuni Icelandair. Í viðtali við Túrista á föstudaginn tók Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrum forstjóri Iceland Express, ekki undir þessa gagnrýni á Isavia og sagði jafnframt að flugtímarnir sem félagið hafði til flugs til Bandaríkjanna hefðu ekki reynst erfiðir. En Wow Air fékk sömu tíma úthlutaða í lok árs.

Í morgun sendi Samkeppniseftirlitið frá sér tilkynningu (sjá hér fyrir neðan) vegna viðtalsins og segir þar að yfirlýsingar Skarphéðins séu í ósamræmi við þau sjónarmið sem líst var í kvörtun Iceland Express til eftirlitsins í júní 2012. Skarphéðinn segir hins vegar að eftirlitið leggi honum orð í munn og segir vinnubrögðin forkastanleg eins og sjá má í svari hans til Túrista hér fyrir neðan.

Svar Skarphéðins Berg:

Í frétt á Túristi.is sl. föstudag var ég spurður hvernig þeir flugtímar sem Iceland Express hafði til Ameríkuflugs á sínum tíma hafi reynst. Ég svaraði því til að þetta hefði gengið ágætlega enda hefðu aðrir afgreiðslutímar á Keflavíkurflugvelli verið í samræmi við þá. Slíkt væri mikilvægt. Þá var ég spurður almennt um þá deilu sem uppi væri vegna þess að Wow telur þessa afgreiðslutíma ekki henta sér og svaraði ég því til að það væri undarlegt að hlutaðeigandi gætu ekki fundið lausn á þessu í sameiningu. Þá væri það mín reynsla af forsvarsmönnum ISAVIA að þeir væru jafnan reiðubúnir til að leita lausna á vandamálum sem kæmu upp. Tók fram að ég teldi þá ekki sérstaka hagsmunagæslumenn Icelandair.

Í orðsendingu Samkeppniseftirlitsins til fjölmiðla í dag er vísað í umfjöllun fjölmiðla frá því á föstudag og sagt að „[ég] furði [mig] á málarekstri gagnvart Isavia“ og að „Iceland Express hafi ekki átt í neinum vandkvæðum með að sinna flugi til Boston og New York árið 2011“. Þessi ummæli hafa mér vitanlega hvergi komið fram í fjölmiðlum. Hér leggur Samkeppniseftirlitið mér orð í munn. Ég hef aldrei furðað mig á einu eða neinu um einhvern málarekstur sem ég veit ekkert um. Þá væri fráleitt af mér að halda því fram að Iceland Express hafi ekki átt í nokkrum vandkvæðum með flug til Ameríku. Það hefðu hins vegar ekki verið umræddir brottfarartímar sem ollu vandræðum.

Á þeim tíma sem ég stýrði rekstri Iceland Express beindi félagið ýmsum athugasemdum og ábendingum til Samkeppniseftirlitsins. Stofnunin sá þá hins vegar aldrei ástæðu til að aðhafast í málefnum er vörðuðu félagið með líkum hætti og hún gerir nú í þágu Wow air.

Þessi ummæli sem Samkeppniseftirlitið eignar mér er uppspuni þeirra. Eini fjölmiðillinn sem ég ræddi við á föstudaginn og hafði eftir mér ummæli var Túristi.is. Hvergi er þar að finna þessi tilvitnuðu ummæli. Þessi vinnubrögð eru forkastanleg en koma svo sem ekki á óvart þegar forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins eru annars vegar. Þeir eiga það til að hlaupa hratt framúr sjálfum sér.

Yfirlýsing Samkeppniseftirlitins:

Á fjölmiðlum á föstudag er haft eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, fyrrverandi forstjóra Iceland Express, að hann furði sig á málarekstri gagnvart Isavia, en Wow Air hefur undanfarna mánuði leitað eftir flugafgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli, á tilteknum tímabilum dagsins, í því skyni að hefja Ameríkuflug í samkeppni við Icelandair. Samkeppniseftirlitið fjallaði um málið í ákvörðun nr. 25/2013 og beindi bindandi fyrirmælum til Isavia vegna málsins í því skyni að efla samkeppni.

Í fyrrgreindum fréttum er haft eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni að Iceland Express hafi ekki átt í neinum vandkvæðum með að sinna flugi til Boston og New York árið 2011. Af þessu tilefni er rétt að fram komi að á þeim tíma sem Skarphéðinn vísar til hafði Samkeppniseftirlitið til meðferðar kvörtun frá Iceland Express þar sem félagið kvartaði undan alvarlegum samkeppnishindrunum sem stöfuðu af úthlutun flugafgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Í júní 2012, þegar Skarphéðinn var framkvæmdastjóri Iceland Express, barst Samkeppniseftirlitinu bréf frá félaginu þar sem fram kemur það mat að fyrirkomulag Isavia við úthlutun afgreiðslutíma hafi haft veruleg útilokunaráhrif fyrir Iceland Express og viðhéldi yfirburðarstöðu Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Einnig er vísað til þess að Isavia hafi með fyrirkomulaginu veitt Icelandair samkeppnisforskot og „einkarétt“ á bestu afgreiðslutímum á flugvellinum. Hafi Iceland Express m.a. þurft að hætta áætlunarflugi til Bandaríkjanna sem það hafði starfrækt árin 2010 og 2011.

Yfirlýsingar Skarphéðins Berg Steinarssonar um úthlutun Isavia á afgreiðlutímum eru því í ósamræmi við sjónarmið sem Iceland Express undir hans stjórn setti fram við Samkeppniseftirlitið um mitt ár 2012. Telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að opinber umræða um mikilvæg samkeppnismál fari fram á grundvelli réttra forsendna.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …