Vilja banna símtöl úr háloftunum

Reglur um notkun raftækja í bandarískri lofthelgi verða líklega rýmkaðar á næstunni. Þingmenn og ráðherrar í Washington virðast þó sammála um að koma í veg fyrir of mikið frjálsræði um borð.

Marga flugfarþega hryllir við tilhugsunina um símalandi sessunaut. Þessi ótti virðist sérstaklega útbreiddur meðal bandarískra þingmanna því meirihluti virðist vera fyrir því í Washington að banna símtöl um borð í flugvélum. Jafnvel þó notkun raftækja verði leyfð alla flugferðina en í dag er bannað að hafa kveikt á tækjunum í flugtaki og í lendingu. Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs ætlar Anthony Foxx, samgönguráðherra, að beita sér fyrir banni á símtöl og stuðningur virðist vera við það frumvarp meðal þingmanna.

Forsvarsmenn Delta flugfélagsins höfðu áður gefið út að þeir myndu ekki heimila símtöl um borð jafnvel þó að lög landsins myndu leyfa það. Delta flýgur hingað til lands á sumrin frá New York.

Víða annars staðar eru flugfélög farin að leyfa fólki að hringja heim í gegnum þráðlaust net en miðað við andstöðuna á bandaríska þinginu er ekki útlit fyrir að það verði leyft vestanhafs í bráð.

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDON3JA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: SVONA BORGAR ÞÚ MIKLU MINNA FYRIR BÍLALEIGUBÍL