Á brattann að sækja hjá Easy Jet

Á sama tíma og breska lággjaldaflugfélagið eykur umsvif sín hér á landi draga forsvarsmenn félagsins saman seglin í nágrannalöndunum.

Nærri ein af hverjum tíu farþegaþotum sem hefja sig til flugs í Keflavík er á vegum breska lággjaldaflugfélagsins Easy Jet. Félagið hefur meira en fjórfaldað starfsemi sína hér á landi og bauð upp á 56 ferðir héðan til fjögurra breskra flugvalla í síðasta mánuði. Í vor hefst svo áætlunarflug til Basel í Sviss.

Innkoma Easy Jet á íslenska markaðinn virðist því hafa gengið upp en sömu sögu er ekki að segja af tilraunum félagsins í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Í sumarbyrjun mun félagið hætta flugi til og frá Noregi en fyrir þremur árum fór félagið einnig af finnska markaðnum samkvæmt frétt Checkin.dk. Í Svíþjóð hafa forsvarsmenn Easy Jet dregið saman seglin og bjóða aðeins upp á flug milli Genfar og Stokkhólms. Í Danmörku hefur félagið hins vegar dafnað og er nú meðal umsvifamestu flugfélaganna á Kaupmannahafnarflugvelli.

Ótrúleg fjölgun breskra ferðamanna

Líkt og Túristi greindi frá þá eru Íslendingar ekki lengur fjölmennasti ferðaþegahópurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Breskum ferðamönnum hefur nefnilega fjölgað um nærri helming frá því í fyrra og á sama tíma hefur ferðunum þangað fjölgað hratt. Er nú flogið nærri átta sinnum á dag til Bretlands frá Keflavíkurflugvelli og hefur flug til London meira en tvöfaldast. Munar þar um tilraun Easy Jet á daglegu flugi héðan til Luton flugvallar í útjaðri Lundúna.

Mikil verðlækkun

Þessi fjölgun ferða til Bretlands virðist hafa haft töluverð áhrif á fargjöldin því samkvæmt nýlegri verðkönnun Túrista hafa farmiðar til London lækkað um meira en fjórðung hjá Icelandair og Wow Air en um nærri fjörtíu prósent hjá Easy Jet milli ára.

TILBOÐ: 15% afsláttur í KaupmannahöfnÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?