Biðja farþega um að vera fyrr á ferðinni

Breytingar í innritunarsal Keflavíkurflugvallar munu hægja á afgreiðslu næstu mánuði og það borgar sig því að mæta tímanlega í flugið.

Á annasömum degi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru afgreiddar um sex þúsund ferðatöskur og þegar mest lætur þá fara um 1.100 töskur í gegnun farangurskerfið á einum klukkutíma. Þetta eru þó ekki næg afköst því farþegum í flugstöðinni hefur fjölgað hratt síðustu ár og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti.

Nýtt farangursflokkunarkerfi verður því sett upp á næstu mánuðum og samkvæmt tilkynningu frá Isavia verður flestum innritunarborðum Icelandair lokað í næstu viku og færist innritun þangað sem afgreiðsluborð Wow Air eru í dag. Þeim hluta verður síðan lokað þegar vinnu við fyrri áfanga lýkur í maí og færist þá öll innritun á svæði Icelandair þar til endurbótum lýkur í júní.

Til þess að tryggja skjóta afgreiðslu og lágmarka óþægindi mun innritun í morgunflug hefjast klukkan hálf fimm á morgnana. Forsvarsmenn Isavia hvetja flugfarþega til að vera fyrr á ferðinni en venjulega og nýta sér netinnritun flugfélaganna eða sjálfsinnritunina á flugvellinum. Morgunferðir áætlunarbifreiða frá Reykjavík hefjast klukkan fjögur á nóttunni.

Hér má sjá kort af hvernig innritunarsalurinn verður næstu vikur:

TILBOÐ: ÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?

Mynd: Isavia