Afhverju hækkar verðið þegar bókað er fyrir alla fjölskylduna?

Þegar pantaðir eru fjórir flugmiðar í einu getur verð á hvern farþega orðið nokkru hærra en ef aðeins er bókaður einn miði. Túristi bað forsvarsmenn flugfélaganna að útskýra málið.

Það eru sennilega margir sem kanna verð á flugmiðum með því að leita aðeins eftir fari fyrir einn farþega þó ætlunin sé að kaupa fyrir alla fjölskylduna. En þegar farþegafjöldinn er hækkaður úr einum í fjóra þá getur meðal fargjaldið hækkað um þúsundir króna.

Túristi fann nokkur slík dæmi í athugun sinni á heimasíðum Icelandair og Wow Air eins og sjá má hér fyrir neðan. Þess ber þó að geta að í flestum tilfellum er munurinn enginn en hann getur hins vegar verið umtalsverður.

Verðdæmi:

Icelandair til Barcelona 22. til 29. júlí:

1 miði bókaður: 82.600 kr.
4 miðar bókaðir: 85.700 kr. á mann
Mismunur: 3.100 kr.

Wow air til Barcelona 18. til 25. júlí

1 miði bókaður: 57.576 kr.
4 miðar bókaðir: 59.576 kr. á mann
Mismunur: 2.000 kr. á mann (995 kr. bókunargjald bætist við hjá Wow Air)

Icelandair til Mílanó 7. til 14. júlí:

1 miði bókaður: 63.080 kr.
4 miðar bókaðir: 69.180 kr. á mann
Mismunur: 6.100 kr.

Wow air til Zurich 5. til 12. júlí

1 miði bókaður: 86.703 kr.
4 miðar bókaðir: 94.703 kr. á mann
Mismunur: 8.000 kr. á mann (995 kr. bókunargjald bætist við hjá Wow Air)

Mismunandi ástæður

Aðspurður um þennan mikla mun segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair: „Í hverri vél er ákveðinn fjöldi sæta á ákveðnu verði. Að öllu jöfnu eru ódýrustu sætin seld fyrst og síðan dýrari koll af kolli og að lokum er síðasta sætið í vélinni jafnframt það dýrasta. Þegar fleiri en einn í hóp kaupa sér sæti saman eru keypt bæði ódýr sæti og dýrari og þannig verður meðalverðið hærra en ef eingöngu er keypt ódýrasta sætið. Sama niðurstaða fengist ef fjögur sæti væru keypt í sitthvoru lagi.”

Talsmenn flugfélaganna SAS og Norwegian segja bókunarkerfi sinna félaga þó ekki vera þessum eiginleika búin. Í viðtali við Aftenposten segir upplýsingafulltrúi Norwegian að ef til eru fjórir miðar á 499 norskar krónur og sjö miðar á 679 krónur og panta eigi sjö miða, þá finni bókunarvélin sjálfkrafa dýrari miðana. Talsmaður SAS segir þeirra kerfi byggt upp á sambærilegan hátt  og það finnur því ekki meðalverð líkt og kerfi Icelandair. Túristi leitaði einnig skýringa hjá upplýsingafulltrúa Wow Air en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst ekki svar.