Nærri tvöfalt fleiri bráðabirgðakort gefin út í fyrra

Það lætur nærri að þrír íslenskir ferðalangar á dag hafi þurft á skyndiafgreiðslu á Evrópska sjúkratryggingakortinu að halda á síðasta ári. Alls voru gefin út nærri fjörtíu þúsund hefðbundin kort.

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi EES-landanna. Íslendingar sem veikjast eða slasast á ferðalagi í einu af hinum aðildarlöndunum fá því aðstoð samkvæmt reglum dvalarlandsins en þurfa þá að sýna sjúkratryggingakortið. Í fyrra voru gefin út 38.864 kort samkvæmt tölum frá Sjúkratryggingum Íslands sem er nokkuð minna en árið 2012 þegar fjöldinn fór yfir fjörtíu og fimm þúsund.

Þrír á dag á leið til læknis án korts

Mælst er til að fólk hafi kortið á sér á ferðalagi um Evrópu en ef það gleymist og leita þarf til læknis er hægt að biðja um bráðabirgðaútgáfu. Í fyrra varð mikil aukning í þess háttar beiðnum og gáfu starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands út 894 bráðabirgðakort sem er um tvöfalt fleiri en árið 2012. Það lætur því nærri að allt síðasta ár hafi að jafnaði þrír íslenskir ferðamenn á dag sótt um bráðabirgðaútgáfu en það gerir fólk sjaldnast fyrr en það er komið til læknis eða þarf á heilbrigðisþjónustu að halda samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum.

Á vef Sjúkratrygginga Íslands er hægt að sækja rafrænt um Evrópska sjúkratryggingakortið en þeir sem þurfa á bráðabirgðakorti að halda geta sent fyrirspurn til international@sjukra.is.

Takmörkuð aðstoð

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir margvísleg réttindi en ekki rétt til heimflutnings til Íslands. Það tekur heldur ekki til kostnaðar sem ekki telst vera beinn sjúkrakostnaður samkvæmt vef Sjúkratrygginga. Kortið kemur því ekki í stað hefðbundinna ferðatrygginga. Upplýsingar um hver réttindi handahafa kortsins eru má nú finna í snjallsímaforriti sem er meðal annars á íslensku.

Kortið gildir í eftirtöldum löndum:

Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Búlgaríu, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur (gríska hlutanum), Lettlandi, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Noregi, Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Sviss, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.

TILBOÐ: 15% afsláttur í KaupmannahöfnÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
VINSÆLT: ER ÓDÝRARA AÐ LEIGJA BÍL MEÐ 3JA MÁNAÐA EÐA 3JA VIKNA FYRIRVARA?