Samkeppni um farþega á leið til Bergen

Í dag hófst áætlunarflug Norwegian til vesturstrandar Noregs. Talsmaður félagsins segir farþegum félagsins í Íslandsflugi hafa fjölgað í ár.

Það er boðið upp á áætlunarflug héðan til fjögurra norskra borga og hefur aðeins verið samkeppni um farþega á leið til Oslóar. Þangað fljúga Icelandair, Norwegian og SAS allt árið um kring.

Íslenska félagið er það eina sem flýgur til Stavanger og Þrándheims og þar til í dag var félagið líka það eina sem bauð upp á ferðir til Bergen. En nú hefur Norwegian blandað sér í baráttuna um farþega á þessari leið og mun félagið fljúga hana tvisvar í viku fram í desember. Icelandair býður upp á allt að daglegar ferðir þangað frá vori og fram á haust.

Að sögn Lasse Sandaker-Nielsen, talsmanns Norwegian, stendur ekki til að fljúga frá vesturströnd Noregs til Íslands yfir háveturinn.

Bæta ekki við Oslóarflugið

Fyrir tveimur árum síðan hóf Norwegian að fljúga til Íslands frá Osló. Ferðirnar eru þrjár í viku og hefur farþegum félagsins á þessari leið fjölgað töluvert það sem af er ári samkvæmt Lasse Sandaker-Nielsen. Hann segir samt engin áform uppi um að fjölga ferðunum milli Oslóar og Keflavíkur.

Líkt og Túristi greindi frá nýverið þá fékk Norwegian afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug til Kaupmannahafnar í sumar en forsvarsmenn félagsins ákváðu að nýta þá ekki.

Dreifum okkur betur um Noreg

Íslenskum hótelgestum í Noregi fjölgaði um 16 prósent á síðasta ári en aðeins sjötti hver Íslendingur, sem heimsækir Noreg, gistir í höfuðborginni samkvæmt úttekt Túrista. Í Svíþjóð gistir annar hver Íslendingur í Stokkhólmi og í Danmörku dvelja átta af hverjum tíu íslenskum ferðamönnum á hótelum á Kaupmannahafnarsvæðinu.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
GISTING: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM