Hefðu fyllt fjörtíu þotur

Sjö þúsund farþegar höfðu bókað sæti í ferðum Wow Air sem felldar voru niður vegna breytinga á flugáætlun sumarsins.

Í sumar stóð til að Wow Air hefði fimm farþegaþotur á sínum snærum. Þeim fækkar hins vegar um eina þar sem fallið var frá áformum um flug til Bandaríkjanna. Af þeim sökum þurfti einnig að hætta við flug til Stokkhólms og nú hefur ferðum Wow Air til Kaupmannahafnar, Mílanó og Zurich verið fækkað um eina í viku vegna breytinga á flugflotanum. Það staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins.

1200 á leið til Stokkhólms

Í byrjun febrúar tilkynntu forsvarsmenn Wow Air að ekkert yrði úr flugi félagsins vestur um haf og til höfuðborgar Svíþjóðar og myndi það hafa „áhrif á 7000 farþega sem nú þegar hafa keypt flug með WOW air.“ Til skýringar má nefna að í vélum Wow Air eru 174 sæti og þessir sjö þúsund farþegar hefðu því fyllt fjörtíu þotur í sumar.

Tólf hundruð af þessum farþegum voru á leið til og frá Stokkhólmi að sögn Svanhvítar. Hinir 5.800 hafa þá líklega ætlað að fljúga á milli Íslands og þeirra þriggja borga sem nú er búið að fækka ferðum til. Það fékkst þó ekki staðfest hjá Svanhvíti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Hún segir að búið sé að ganga frá málum langflestra farþega sem urðu fyrir áhrifum af þessum breytingum og fólk hafi sýnt málinu skilning.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
GISTING: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM