Icelandair hefur styrkt stöðu sína í Kaupmannahafnarflugi

Fyrir tíu árum síðan flaug rúmur helmingur þeirra sem átti leið milli Keflavíkur og Kastrup með Icelandair en aðrir með Iceland Express. Nú er skiptingin milli flugfélaga gjörbreytt. Stærsta lággjaldaflugfélag Skandinavíu ætlar ekki að blanda sér í slaginn um farþega á þessari leið.

Það fóru tæplega 398 þúsund flugfarþegar milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur á síðasta ári. Farþegafjöldinn hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár en ennþá er langt í að metið frá árinu 2007 verði slegið. Þá fóru 466 þúsund farþegar þessa leið samkvæmt tölum Samgöngustofnunar Danmerkur.

Inn í þessum tölum eru einnig farþegar Icelandair sem aðeins millilenda í Keflavík á leið milli meginlands Evrópu og N-Ameríku.

Þrír af fjórum með Icelandair

Að því kemur fram nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins var markaðshlutdeild Icelandair í flugi til og frá Kaupmannahöfn 55 til 60 prósent árið 2004. Félagið var þá í samkeppni við Iceland Express á þessari flugleið. Það ár var farþegafjöldinn jafn mikill og hann var í fyrra en skipting farþega á milli flugfélaga hefur gjörbreyst. Því samkvæmt upplýsingum Túrista frá Kaupmannahafnarflugvelli flugu tæplega 295 þúsund farþegar með Icelandair til og frá Kastrup í fyrra sem þýðir að félagið hafði 74 prósent markaðshlutdeild á þessari flugleið. Það er álíka mikið og árið 2012 eins og greint var frá hér á síðunni. Auk Icelandair býður Wow Air upp á áætlunarflug til Kaupmannahafnar en félagið mun fækka ferðum sínum í sumar og verða þær sjö í viku en voru allt að tíu í viku í fyrra. Primera Air flýgur óreglulega á þessari leið.

Ekki liggja fyrir aðrar opinberar upplýsingar um hvernig farþegar hafa dreifst milli flugfélaga á þessari flugleið síðan Iceland Express hóf starfsemi árið 2002 og veitti þá Icelandair samkeppni í Kaupmannahafnarflugi.

Ætla ekki í slaginn

Á síðasta ári var Icelandair tólfta umsvifamesta flugfélagið á Kaupmannahafnarflugvelli. Lággjaldaflugfélagið Norwegian var hins vegar í öðru sæti á eftir SAS. Forsvarsmenn norska félagsins sóttu um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug til Kaupmannahafnar í sumar. En eins og Túristi greindi frá nýverið verður ekkert úr þeim áformum.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
GISTING: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM