Íslendingar stoppa lengst allra í Berlín

Í fyrra fjölgaði ferðum íslenskra túrista til höfuðborgar Þýskalands um 13,3 prósent. Engin Evrópuþjóð gefur sér eins langan tíma í ferðalag um borgina og við gerum, samkvæmt tölum þýskra ferðamálayfirvalda.

Íslenskir ferðamenn í Berlín voru um þúsund fleiri í fyrra en árið á undan. Í heildina komu 8.691 Íslendingur þar við á síðasta ári samkvæmt talningu ferðamálaráðs borgarinnar. Aukningin nemur um þrettán prósentum frá árinu 2012. Það ár dvaldi hinn íslenski túristi að jafnaði 2,9 nætur á gististöðum borgarinnar en í fyrra lengdist meðaldvölin upp í 3,6 nætur. Það er um einni nótt lengur en aðrar Evrópuþjóðir gefa sér í ferðalag um Berlín. Ástæðan gæti verið sú að á veturna er Wow Air eins félagið sem flýgur héðan til höfuðborgar Þýskalands og eru ferðirnar tvær til þrjár í viku.

Nokkuð frá metinu

Vinsældir Berlínar sem áfangastaðar jukust töluvert hér á landi árið 2011 og heimsóttu þá um 9.400 Íslendingar borgina. Aukningin það ár nam 64 prósentum. Árið eftir fækkaði komum íslenskra ferðamanna til höfuðborgar Þýskalands en í fyrra bættist við fjöldann á ný.

Í sumar verður framboð á beinu flugi til Berlínar meira en áður og verður flogið allt að tólf sinnum í viku. Þrjú flugfélög munu halda uppi áætlunarflugi þangað frá Keflavík yfir aðalferðamannatímabilið (sjá hér hvaða félög fljúga hvert í sumar).

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN

HÓTEL: GERÐU VERÐSAMANBURÐ OG BÓKAÐU HAGSTÆÐASTA KOSTINN