Ódýrari Rússlandsreisur

Þó stutt sé í aðal ferðamannatímann er ennþá hægt að velja úr mörgum ódýrum ferðum til Sankti Pétursborgar í sumar. Óvissuástandið í landinu hjálpar ekki segir talsmaður Icelandair.

Í byrjun þessa árs kostaði ódýrasta ferðin til Sankti Pétursborgar í ágúst rúmar fimmtíu þúsund krónur samkvæmt verðkönnun Túrista. Núna er hins vegar fjöldi brottfara Icelandair til borgarinnar á rúmar tuttugu þúsund krónur og farið, báðar leiðir, í mörgum tilvikum á 40.830 kr. Til samanburðar er varla hægt að finna sumarfargjöld til Spánar, Ítalíu og Sviss á undir fimmtíu þúsund krónur. Aðspurður um hvort þessi lágu verð séu til marks um minnkandi eftirspurn eftur ferðum til Rússlands segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, það vera alveg ljóst að óvissuástand, eins og það sem ríkir í málefnum Rússlands og Úkraínu, hjálpi almennt ekki í sölu- og markaðsstarfi.

Rúblan hrynur

Fyrir ári síðan þurftu íslenskir túristar í Rússlandi að margfalda verðin þar með rúmlega fjórum til að vita hvað hlutirnir kostuðu í íslenskum krónum. Í dag hefur rússneska rúblan hins vegar lækkað um nærri fjórðung frá því í fyrra í samanburði við íslensku krónuna.

En á sama tíma og það verður ódýrara fyrir Íslendinga að heimsækja Rússland þá kostar það heimamenn meira að dvelja í útlöndum. Í fyrra komu um sjö þúsund rússneskir ferðamenn hingað til lands og fjölgaði þeim um nærri helming milli ára. Það er hlutfallslega meiri aukning en frá nokkru öðru landi samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Icelandair hóf beint flug til Sankti Pétursborgar í byrjun síðasta sumars og var það í fyrsta skipti sem boðið var upp á áætlunarferðir héðan til Rússlands.

Rússar virðast því hafa tekið þeim möguleika fagnandi að geta flogið beint hingað til lands. En ef eftirspurn eftir utanlandsferðum minnkar í Rússlandi þá hefur það áhrif á verð á flugi til og frá landinu líkt og virðist vera raunin með fargjöld Icelandair til Sankti Pétursborg í sumar.

Engar ferðaviðvaranir

Á heimasíðum utanríkisráðuneyta nágrannalandanna eru daglega uppferðar ábendingar um þau svæði og lönd sem ekki er ráðlegt að ferðast um. Ástandið á Krímskaga hefur ekki orðið til þess að ráðleggingum varðandi ferðalög til vesturhluta Rússlands hafi verið breytt samkvæmt lauslegri athugun Túrista.

TENGDAR GREINAR: Skyldustoppin í Sankti PétursborgLent á nýjum stað í Sankti Pétursborg

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM