Spænskur dagur í Kringlunni

Það er ekkert land sem laðar til sín eins marga íslenska túrista og Spánn gerir. Á morgun, laugardag, gefst tækifæri til að kynna sér margt af því besta Spánn hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn.

Í sumar munu fjögur flugfélög bjóða upp á áætlunarflug til meginlands Spánar og úrvalið af sólarlandaferðum þangað er töluvert. Það er einnig löng hefð hér á landi fyrir vetrarfríi á Kanarí og Tenerife. Framboð á ferðum til Spánar er því mikið og ekkert land laðar til sín fleiri íslenska túrista.

Á morgun, laugardag, efnir ferðamálaráð landsins til sinnar árlegu kynningar á Spáni sem áfangastað fyrir alla þá sem vilja komast í góða utanlandsferð á næstunni.

Dagskráin hefst klukkan ellefu í fyrramálið og boðið verður upp á kynningar frá ferðaþjónustuaðilum, skemmtiatriði, andlitsmálun og spænskar kræsingar. Einnig verður efnt til ferðagetraunar.

Hér má sjá hvaða flugfélög bjóða upp á ferðir til Spánar í sumar.

TENGDAR GREINAR: ÓTRÚLEGUR VERÐMUNUR Á BÍLALEIGUM SPÁNAR
NÝJAR GREINAR: SUMARFARGJÖLDIN SVEIFLAST UPP OG NIÐUR

Mynd: Islas Canarias