Hvað skal borða við helstu matargötu höfuðborgarinnar?

Það getur verið erfitt að finna matsölustað eftir að hungrið er farið að segja til sín. Hér er þó komin leitarvél sem á að koma í veg fyrir að fólk lendi í ferðamannagildru við eina skemmtilegustu götu Washington borgar.

Úrvalið af veitingastöðum við fjórtánda stræti í Washington svíkur engan líkt og Túristi hefur áður fjallað um. Heimamenn og gestir borgarinnar streyma í götuna á matmálstímum og líka til að gera sér glaðan dag eftir að sólin sest.

Blaðamenn bæjarblaðsins Washington Post hafa nú útbúið sérstaka matarsíu sem á að auðvelda lesendum að finna rétta veitingastaðinn út frá fjármagni, matarlyst og smekk. Það er ánægjulegt að sjá að nokkrir af þeim stöðum sem matgæðingar Washington Post mæla með eru meðal þeirra sem finna má í vegvísi Túrista fyrir borgina.

Icelandair flýgur allt að daglega til Washington frá Keflavík og borgin er því kjörinn vettvangur fyrir þá sem vilja í borgarferð vestur um haf.

TENGDAR GREINAR: Leiðin frá Hvíta húsinu að uppáhalds skyndibitastað forsetafrúarinnar

Mynd: Birch and Barley