Wow Air kærir niðurstöðu áfrýjunarnefndar

Áfram verður deilt um hvernig staðið er að úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli og nú fyrir dómstólum.

Í lok febrúar felldi áfrýjunarnefnd samkeppnismála úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að Wow Air skyldi fá tvo afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli til að sinna flugi til N-Ameríku. Forsvarsmenn flugfélagsins hafa sagt þessa ákveðnu tíma vera forsendu fyrir því að félagið geti hafið flug til Bandaríkjanna. ttu þeir tímabundið við flug vestur um haf vegna þeirrar óvissu sem var um málið nú í upphafi árs.

 

Allir dómarar vanhæfir

Wow Air hefur nú kært ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar og krefst ógildingar á úrskurði hennar. Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir í svari til Túrista að krafist verði frávísunar á málinu á grundvelli aðildarskorts. Hann segir að áfrýjunarnefndin hafi verið búin að taka afstöðu til þess að Wow Air ætti ekki aðild að málinu. Meðal annars vegna þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í vetur hefði verið beint að Isavia en ekki öðrum. Friðþór bendir einnig á að flugfélagið hafi ekki sótt um úthlutun afgreiðslutíma hjá samræmingarstjóra vegna tímabilsins sem ákvörðunin tók til. Svanhvít Friðriksdóttir, talsmaður Wow Air, segist ekki geta tjáð sig um þessi mál að svo stöddu.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en þar sem dómsstjóri hans var skipaður til formennsku í áfrýjunarnefnd Samkeppnismála þá eru allir dómarar við réttinn vanhæfir. Dómstjóri Héraðsdóms Vestfjarða er nú með málið á sinni könnu.

Skýrar reglur

Skortur á flugvélastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er grunnurinn að þessari deilu. Í dag nýtir Icelandair nefnilega öll þau pláss eru til reiðu fyrir flug til og frá löndum utan Schengen svæðisins í morgunsárið og seinni part dags. Er stæðunum úthlutað samkvæmt reglum Evrópusambandsins og IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga. Í svari IATA til Túrista vegna málsins segir að forsvarsmenn samtakanna vilji ekki tjá sig um deiluna á Íslandi en segja að reglurnar sem gilda um úthlutun afgreiðslutíma vera skýrar og sanngjarnar. Benda þeir á að flugfélög eigi hefðarrétt á afgreiðslutímum en ef nýtingin fari undir 80 prósent þá missi flugfélög viðkomandi tíma og þeim sé úthlutað á ný. Alla vega helmingi þeirra afgreiðslutíma sem er endurhlutað eiga að fara til nýrra flugfélaga. Í svari IATA segir jafnframt að hefðarrétturinn sé undirstaðan í því úthlutunarkerfi sem notað er víða um heim og þar sé einnig tekið fram að ekki megi svipta flugfélag afgreiðslutíma til að hleypa nýjum aðila að.

Samkvæmt því sem Túristi kemst næst er einnig hægt að neyða flugfélög til að gefa eftir afgreiðslutíma í kjölfar samruna. Nýlegt dæmi um það er þegar British Airways keypti BMI og varð í kjölfarið að losa sig við fjórtán af 56 leyfum síðarnefnda félagsins á Heathrow. Samskonar staða kom upp á Ronald Reagan flugvelli í Washington þegar American Airlines og United sameinuðust.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
GISTING: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM