Wow Air var aðeins undir meðaltalinu

Að jafnaði var sætanýting stærstu lággjaldaflugfélaga Evrópu 84 prósent á síðasta ári. Wow Air komst nálægt þessu hlutfalli á sínu öðru starfsári en var langt frá því á sínu fyrsta.

Síðasta ár var metár hjá lággjaldafélögunum í Evrópu og fluttu þau 216 milljónir farþega sem er 43 prósent af öllum þeim flugfarþegum sem ferðuðust milli evrópskra flugvalla í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt frá ELFAA, samtökum tíu stærstu lággjaldaflugfélaga Evrópu.

Aldrei áður hefur farþegafjöldinn farið yfir tvö hundruð milljónir hjá aðildarfélögunum og að jafnaði seldust 84 prósent allra þeirra sæta sem voru í boði. Til samanburðar voru 81 prósent sætanna hjá Wow Air bókuð í fyrra samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Samkeppnin við Iceland Express erfið

Fyrsta áætlunarflug Wow Air var í lok maí 2012 og hafði félagið 178.096 sæti til sölu það ár en seldi 112.223. Sætanýtingin hefur því verið 63 prósent á fyrsta ári félagins. En samkvæmt greiningu IATA, alþjóðlegs félags flugfélaga, þá þurftu flugrekendur að ná 63,8 prósenta sætanýtingu til að standa undir fastakostnaði árið 2012. Forsvarsmenn Wow Air tóku Iceland Express yfir það sama ár og í kjölfarið hefur nýtingin batnað til muna og framboðið aukist.

Ryanair er langstærst

Farþegar írska flugfélagsins Ryanair voru rúmlega áttatíu milljónir í fyrra og um sextíu milljónir flugu með Easy Jet. Þessi tvö félög eru langstærst innan ELFAA en norska lággjaldafélagið Norwegian er í þriðja sæti með nærri 21 milljón farþega. En tvö síðarnefndu félögin fljúga hingað allt árið um kring en eins og Túristi hefur áður greint frá þá skoðuðu forsvarsmenn Ryanair flug til Keflavíkur og Akureyrar en ekkert varð úr þeim áformum.

Sjáðu hvert verður flogið frá Keflavík í sumar

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl