Hefja beint flug til Sviss allt árið um kring

Framboð á áætlunarflugi til Sviss mun þrefaldast í sumar og í vetur verður í fyrsta skipti boðið upp á beint flug til landsins.

Í byrjun þessa mánaðar hóf Easy Jet að fljúga beint frá Basel í Sviss til Keflavíkur. Þá stóð til að gera hlé á fluginu yfir vetrarmánuðina en nú hafa forsvarsmenn breska lággjaldaflugfélagsins ákveðið að starfrækja flugleiðina allt árið. Samkvæmt því sem Túristi kemst næst hefur ekki áður verið boðið upp á beint áætlunarflug milli Íslands og Sviss yfir vetrarmánuðina.

Fáir Íslendingar um borð

Hlutfall íslenskra farþega hjá Easy Jet er aðeins 11 prósent og hefur það lækkað hratt frá því að félagið hóf starfssemi hér á landi fyrir tveimur árum síðan. Á sama tíma hafa umsvif þess á Keflavíkurflugvelli aukist mjög mikið og býður félagið nú upp á beint flug þaðan til fjögurra breskra borga auk Basel í Sviss.

Easy Jet stóð fyrir nærri tíundu hverji brottför frá Keflavík í mars samkvæmt talningu Túrista.

Stóraukið framboð

Í fyrra var aðeins boðið upp á sumarflug til Zurich í Sviss frá Íslandi en nú bætist við beint flug til Genfar og Basel. Icelandair hefur einnig fjölgað ferðum sínum til Zurich og í heildina verður flogið til Sviss ellefu sinnum í viku yfir sumarmánuðina og fram á haustið. Eftir það verður aðeins í boði beint flug til Basel tvisvar í viku á vegum Easy Jet. Ódýrasta farið þangað í vetur, báðar leiðir, er á tæpar þrettán þúsund krónur.

Svissneska flugfélagið Edelweiss Air flýgur hingað á sumrin en farmiðar með félaginu eru aðeins seldir í gegnum þarlendar ferðaskrifstofur.

BÍLALEIGUBÍLAR: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN