Annað breskt lággjaldaflugfélag boðar komu sína

Breskum ferðamönnum fjölgaði um nærri því helming á síðasta ári og nú ætlar flugfélagið Flybe að fljúga hingað yfir aðalferðamannatímann.

Forsvarsmenn breska lággjaldaflugfélagsins Flybe hafa með skömmum fyrirvara ákveðið að hefja flug hingað frá Birmingham. Iceland Express bauð á sínum tíma upp á flug til þessarar næst fjölmennstu borgar Bretlands.

Íslandsflug Flybe hefst í lok júní og lýkur í byrjun september og farnar verða þrjár ferðir í viku. Flogið verður frá Keflavík rétt fyrir miðnætti og lent í Birmingham um klukkan fjögur að nóttu.

Samkvæmt athugun Túrista er lægsta fargjald Flybe 51,8 evrur sem jafngildir um átta þúsund krónum. Ódýrasta farið báðar leiðir er á tæpar nítján þúsund krónur og við það bætist töskugjald upp á fjögur þúsund krónur.

Með tilkomu Flybe verður Easy Jet ekki lengur eina breska flugfélagið sem býður upp á áætlunarflug hingað.

Mikil aukning í flugi til Bretlands

Líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni þá hefur framboð á flugi héðan til London ríflega tvöfaldast síðustu tvö ár og er nú flogið þangað um fjörtíu ferðir í viku. Við það bætist svo flug til Bristol, Edinborgar, Glasgow og Manchester og nú Birmingham. Í heildina verður því flogið um átta sinnum á dag til Bretlands í sumar frá Keflavík.

Ferðamannastraumurinn hingað frá Bretlandi hefur aukist mjög hratt síðustu ár og í fyrra heimsóttu 137 þúsund Breta landið og nam viðbótin 45 prósentum frá árinu á undan samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Bandaríkjamenn eru næst fjölmennastir hér á landi og í fyrra komu um 120 þúsund ferðamenn þaðan.

BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN