Flugfélögin juku framboðið

Vélar Icelandair tóku 54 sinnum oftar á loft í Keflavík í mars en á sama tíma í fyrra. Wow Air fjölgaði ferðunum um meira en helming og umsvif Easy Jet rúmlega tvöfölduðust.

Að jafnaði var boðið upp á tuttugu og fimm áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Það er aukning um fimm daglegar ferðir frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Túrista.

Líkt og áður stendur Icelandair fyrir bróðurpartinum af framboðinu eða um sjö af hverjum tíu ferðum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Easy Jet stærra en Wow Air og Iceland Express voru

Á morgun hefst áætlunarflug Easy Jet til Basel í Sviss og flýgur félagið þá til fimm borga frá Íslandi. Í mars í fyrra stóð breska félagið fyrir 29 ferðum héðan til Bretlands en núna voru þær 68. Til samanburðar þá flaug Wow Air 64 ferðir í mars á síðasta ári og Iceland Express fór 48 ferðir í mars árið 2012. Framboðið hjá Easy Jet er því meira en íslensku lággjaldafélögin buðu uppá í marsmánuði síðustu tvö ár.

Wow Air hefur einnig stóraukið umsvif sín og voru 107 brottfarir á vegum félagsins í síðasta mánuði sem er viðbót um 67 prósent frá sama tíma í fyrra.

Í gær hófst áætlunarflug Norwegian til Bergen og þar með tvöfaldar norska lággjaldaflugfélagið nærri því framboð sitt á flugi héðan til Noregs.

Vægi flugfélaganna í mars 2014:

  1. Icelandair: 71,8%
  2. Wow Air: 13,9%
  3. Easy Jet: 8,8%
  4. SAS: 2,9%
  5. Norwegian: 1,8%
  6. Aðrir: 0,8%

BÍLALEIGA: BÓKA NÚNA EN BORGA SÍÐAR
ORLOFSÍBÚÐIR: BARCELONAPARÍSNEW YORK