Gefa fólki að drekka við innritun

Millilandaflugi seinkar um nokkra klukkutíma í dag vegna vinnustöðvunnar. Farþegar fá hressingu frá starfsmönnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Innan skamms opnar innritun og vopnaleit á Keflavíkurflugvelli og geta farþegar þá komist inn í brottfararsal flugstöðvarinnar. Fyrstu vélarnar fara svo í loftið klukkan korter yfir tíu og seinkar flugi til og frá landinu um allt að fjóra tíma í dag. Svo löng töf gefur farþegum rétt á máltíð eða hressingu samkvæmt þeim reglum sem gilda hér á landi og í tilkynningu Samgöngustofu segir að þessar skyldur falli ekki niður þó flugi sé seinkað vegna verkfalls.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir að vatni verði dreift í innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í dag en að öðru leyti séu farþegar á ábyrgð flugfélaganna. Þar sem fyrstu brottfarir eru stuttu eftir að innritun hefst er gefst farþegum þó sennilega ekki tími til annars en að ganga beint um borð. Farþegar sem þurftu að bíða eftir flugi til landsins á erlendum flugstöðvum hafa þó átt rétt á hressingu samkvæmt reglum um réttindi flugfarþega.

Eins og Túristi greindi frá um daginn þá er staða farþega, sem missa af framhaldsflugi vegna verkfallsins, mismunandi eftir því hvernig flugið var bókað. Ef bæði flugin eru á einum miða þá eiga farþegar rétt á nýjum miða en annars ekki.

BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN