Hætt við örtröð í öryggishliðinu

Vinnustöðvun starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli lýkur klukkan níu í fyrramálið. Þá fyrst opnar vopnaleitin og einum og hálfum tíma síðar fara fyrstu vélarnar í loftið. Farþegar sem mæta snemma og ferðast létt ættu að geta komist fremst í röðina.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnar snemma í fyrramálið en hefðbundin innritun, farangursmóttaka og vopnaleit hefst klukkan níu.

Farþegar Icelandair geta nýtt sér sjálfsafgreiðslustöðvar í innritunarsalnum eða netinnritun fyrir þann tíma og hjá Wow Air opnar sérstakt innritunarborð klukkan hálf níu fyrir þá sem aðeins eru með handfarangur.

Farþegar sem geta ferðast létt á morgun ættu að reyna að láta handfarangurinn duga í þetta skiptið til að komast hjá löngum röðum við vopnaleitina. En samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá er talið óhjákvæmilegt að það verði talsverð biðröð eftir vopnaleit þó hún verði fullmönnuð og keyrt verði á hámarksafköstum um leið og hún opnar klukkan níu.

Eins og Túristi greindi frá í dag þá er réttur farþega sem eru á leið í tengiflug út í heimi á morgun mismunandi. Þeir sem eru með báðar ferðir á einum miða eru á ábyrgð útgefanda miðans en þeir sem bókuðu flugið í sitthvoru lagi eru á eigin ábyrgð.

BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN