Hlutfall Íslendinga hjá Easy Jet hríðlækkar

easyJet nytt

Tæplega þriðji hver farþegi sem innritaði sig í flug á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári var íslenskur. Dreifing heimamanna er mjög mismunandi eftir flugfélögum.

Þegar hið breska Easy Jet hóf flug til Íslands fyrir tveimur árum síðan stóðu farþegar hér á landi undir helmingi pantana. Fimm mánuðum síðar var hlutfall farþega sem hefja ferðalagið á Keflavíkurflugvelli komið niður í þriðjung. Í dag er það aðeins ellefu prósent samkvæmt upplýsingum frá Easy Jet.

Íslendingar standa í stað

Á sama tíma hefur félagið margfaldað umsvif sín hér á landi og stendur nú fyrir um tíundu hverji brottför frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Túrista. Í svari Easy Jet kemur fram að íslenskum farþegum hafi ekki fjölgað á þessum tíma og því hafi hlutdeild Íslendinga lækkað. Langstærsti hluti farþega Easy Jet eru því erlendir ferðamenn.

Hlutfall heimamanna ólíkt

Á árunum fyrir hrun voru Íslendingar um helmingur þeirra farþega sem innritaði sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Í fyrra var hlutfallið komið niður í rúm þrjátíu prósent samkvæmt úttekt Túrista, sem byggir á talningu Ferðamálastofu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Icelandair hófu sautján prósent farþega félagsins ferðalagið á Íslandi á síðasta ári. Hlutfall íslenskra farþega Icelandair er því um helmingi hærra en hjá Easy Jet en töluvert undir meðaltali íslenskra farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Félögin tvö ásamt Wow Air standa fyrir um níu af hverjum tíu áætlunarferðum til og frá Keflavíkurflugvelli og má þess vegna leiða líkur að því að hlutfall íslenskra farþega sé langhæst hjá Wow Air.