Hóta að fella niður frímiða fyrir flugáhafnir

Það eru ekki aðeins starfsmenn Icelandair sem standa í vinnudeilu þessa dagana því kollegar þeirra hjá Norwegian og Finnair eru einnig ósáttir við sín kjör. Forsvarsmenn norrænu flugfélaganna eru sagðir íhuga breytta starfsmannastefnu.

Í desember árið 2011 bauð Iceland Express flugmiða á starfsmannakjörum, eins og það var orðað í tilkynningu. Aðeins þurfti að greiða 2.475 krónur fyrir farið auk skatta en það er að minnsta kosti þrefalt ódýrara en lægstu fargjöldin eru í dag. Starfsmenn flugfélaga geta í einhverjum tilfellum aðeins greitt skattinn og því ferðast mjög ódýrt milli landa. Sambærilegar reglur gilda víða og samkvæmt frétt danska vefmiðilsins Checkin.dk íhuga stjórnendur Norwegian að fella niður þessi réttindi ef starfsmenn félagsins í Noregi og Danmörku vilja ekki ganga að kröfum þeirra um að gera aðskilda kjarasamninga eftir löndum.

Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem flugfélag grípur til þess konar aðgerða því samkvæmt frétt Checkin.dk voru allir þeir starfsmenn British Airways, sem lögðu niður störf í vinnudeilu árið 2010, sviptir réttinum á frímiðum.

Verktakar í stað fastra starfsmanna

Stjórnendur stærstu lággjaldaflugfélaga Evrópu hafa verið gagnrýndir fyrir að halda niðri kostnaði með því að ráða fólk á verktakasamningum og komast þannig hjá orlofs- og veikindagreiðslum líkt og Túristi greindi frá. Forsvarsmenn finnska flugfélagsins Finnair ætla hins vegar að taka upp álíka fyrirkomulag á nokkrum flugleiðum og ráða starfsmenn í gegnum dótturfélög í von um að snúa við rekstri félagsins. Á mánudag slitnaði hins vegar upp úr viðræðum forsvarsmanna Finnair og fulltrúa starfsmanna um þessar sparnaðaraðgerðir samkvæmt tilkynningu frá Finnair.

Í frétt Rúv um helgina kom fram að um þessar mundir eru kjaradeilur sjö hópa í flugþjónustunni hjá ríkissáttasemjara en gærkvöld af verkfalli starfsmanna Isavia frestað til 22. maí.

BÍLALEIGUBÍLAR: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN