Hverfin í Vancouver

vancouver yfir d

Nafn Vancouver er reglulega að finna á listum yfir byggilegustu þéttbýli í heimi og það kemur þeim sem heimsækja borgina ekki á óvart. Í sumar gefst í fyrsta skipti tækifæri á að fljúga héðan beint til vesturstrandar Kanada.

Innan um háhýsin í miðborg Vancouver hafa verið lagðir hjólastígar í allar áttir enda er það yfirlýst markmið borgarstjórans að draga úr umferð bíla á svæðinu. Í bílastæðunum standa svo matarvagnar sem servera fjölbreyttan skyndibita til gangandi vegfarenda. Erilinn sem einkennir háhýsahverfi stórborganna er því víðfjarri í Vancouver. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að þessi sex hundruð þúsund manna borg er ávallt í einu af efstu sætunum á lista Economist yfir þær borgir sem best er að búa í.

Hér eru hverfin í miðborg Vancouver sem nauðsynlegt er að gefa gaum á ferðalagi um borgina. Eins og eins og sjá má þá setur maturinn sterkan svip á bæinn.

Gastown

Elsta hverfið er kannski það skemmtilegasta. Alla vega ef þú vilt kíkja í búðir og fá þér í svanginn. Miðpunkturinn er hringurinn sem strætin Cordova W, Walter og Carroll mynda við lestarteinana. Þar er úrvalið af matsölustöðum fjölbreytt og í öllum verðflokkum. Á mörgum þeirra er lögð áherslu á að skapa sinn eigin stíl og notast við hráefni úr nágrenninu. Hér gefst því tækifæri til að prófa eitthvað nýtt.

Nálægðin við lestarstöðina og Kínahverfið, þar sem útigangsfólk er áberandi, setur svip sinn á Gastown og gefur svæðinu brodd. Húðflúraðir þjónar, sem tárast þegar þeim tekst að búa til fallegt lauf úr kaffimjólkinni, standa vaktina á matsölustöðum og börum hverfisins og eru kannski lýsandi fyrir blönduna á því fína og grófa sem einkennir Gastown.

Granville Island

Því er víða haldið fram að matarmarkaðurinn á Granville eyju sé allra besti í Kanada. Kokkar og metnaðarfullir sælkerar sækja þangað hráefni og túristar geta valið á milli kræsinga á óteljandi matarbásum. Það er því ekki að undra að Granville Island er sá staður í borginni sem laðar til sín flesta ferðamenn. Ferðalagið þangað er líka pínkulítið ævintýri því litlar trillur flytja fólk frá bakkanum við Yaletown og yfir á brygguna við matarmarkaðinn. Skemmtilegra gæti það varla verið.

Stanley Park

Þetta risastóra og sígræna svæði í miðborginni er vel nýtt af íbúunum allan ársins hring en auðvitað mest á sumrin þegar hægt er að leggjast á ströndina og svamla í sjónum. Sjávardýrasafnið Vancouver Aquarium laðar einnig til fjölmarga og er opið alla daga. Stanley Park bíður því upp á smá tilbreytingu frá röltinu um hin stræti Vancouver borgar.

Yaletown

Veitingamenn hafa tekið yfir gömlu vöruhúsin í suðurhluta borgarinnar og sá sem gengur niður Hamilton stræti fer ekki þaðan nema fá sér í svanginn. Það er einfaldlega engin leið að standast freistinguna. Vegna legu borgarinnar eru sjávarréttir góðir á þessum slóðum og heimsókn á Rodney´s Oyester House svíkur ekki. Þar opnar hver þjónn um tvö þúsund ostrur á kvöldi milli þess sem þeir hella hvítvíni í mjólkurglös.
Icelandair flýgur til Vancouver frá vori og fram á haust.
Vegvísir fyrir Vancouver