Stolið úr tugum ferðataska

Því miður er nokkuð um að hnuplað sé úr farangri sem hefur verið innritaður í flug. Ekki er hægt að segja til um hvort það er líklegra að verða fyrir þess háttar tjóni á ferðalagi til og frá landinu eða milli erlendra flughafna.

Það er ákveðinn léttir að sjá ferðatöskuna birtast á farangursbeltinu við komuna á áfangastað. Sérstaklega á leiðinni út því það getur auðveldlega riðlað ferðaplaninu ef farangurinn týnist. Það getur hins vegar verið of snemmt að hrósa happi þó farangurinn skili sér. Stundum gerist það nefnilega að stolið er úr ferðatöskum eftir að farþegar skilja þær við sig við innritunarborðið og þar til að þeir taka við þeim á ný í næstu flugstöð.

Enginn flugvöllur sker sig úr

Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögunum Sjóvá og Vís var tilkynnt um nokkra tugi þess háttar tjóna hjá félögunum tveimur á síðasta ári. Út frá markaðshlutdeild þessara fyrirtækja má reikna með að innan við hundrað íslenskir ferðalangar hafi lent í þess háttar þjófnaði í fyrra.

Ekki er hægt að greina mun á fjölda tilfella eftir því hvort flogið er til og frá Íslandi eða milli tveggja erlendra flugvalla.

Verðmæti í handfarangri

Þó tilfellin séu fá þá gæti borgað sig fyrir flugfarþega að taka það allra verðmætasta með sér í handfarangri. Sama gildir um hluti sem ekki er hægt að vera án í ferðalaginu ef taskan skildi ekki skila sér á réttum tíma eða týnast.

TENGDAR GREINAR: HÉR ERU FLESTIR ÍSLENSKIR FERÐAMENN RÆNDIRTRYGGT FERÐALAG
BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN