Tengiflug gæti farið í súginn vegna verkfalls

Það stefnir í vinnustöðvun flugvallarstarfsmanna í fyrramálið og flugferðum morgundagsins mun þá seinka um nokkra klukkutíma. Staða farþega sem eiga pantað framhaldsflug út í heimi síðar um daginn ræðst af því hvar og hvernig flugið var bókað.

Það eru tuttugu og níu brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar á morgun. Ef gert er ráð fyrir að átta af hverjum tíu sætum séu seld þá ætla um fjögur þúsund manns að fljúga héðan á morgun. Vinnustöðvun flugvallarstarfsmanna milli klukkan fjögur og níu að morgni mun hins vegar seinka ferðum um þrjá til fjóra klukkutíma samkvæmt heimasíðu flugvallarins.

Þurfa að kaupa nýjan miða

Það er óhætt að fullyrða að í þessum fjögur þúsund manna hópi eru margir farþegar sem eiga pantað framhaldsflug út í heimi síðar um daginn. Réttarstaða þessa stóra hóps er mismunandi. Þeir sem eru með bæði flugin á einum miða eru á ábyrgð flugfélagsins eða ferðaskrifstofunnar þar sem miðinn var keyptur. Missi þeir af tengifluginu eiga þeir rétt á að komast á áfangastað án aukakostnaðar. Hins vegar er ólíklegt að viðkomandi eigi rétt á bótum vegna seinkunar þar sem verkfall telst til aðstæðna sem eru óviðráðanlegar.

Farþegar sem bókuðu flugin tvö í sitthvoru lagi eiga ekki rétt á nýjum miðum samkvæmt upplýsingaþjónustu flugfarþega sem Evrópuráðið starfrækir. Sömu reglur gilda vestanhafs samkvæmt því sem Túristi kemst næst.

Dæmi um ólíka stöðu farþega

Farþegi A bókar flug frá Keflavík til Madrídar, með millilendingu í Kaupmannahöfn, á einum miða hjá ferðaskrifstofu eða flugfélagi. Missi farþegi af framhaldsfluginu til Madrídar vegna langrar tafar á fluginu frá Íslandi á hann rétt á að honum verði komið áfram á áfangastað án aukakostnaðar. Undir venjulegum kringumstæðum ætti viðkomandi einnig rétt á fébótum vegna seinkunarinnar en ekki þegar vinnudeila er ástæðan fyrir henni.

Farþegi B bókar flug frá Keflavík til Kaupmannahafnar með áætlaðri komu í Kastrup um hádegisbil. Fjórum tímum síðar á viðkomandi bókað flug, á öðrum miða, frá Kaupmannahöfn til Madrídar. Vegna vinnudeilunnar í Keflavík missir farþeginn af tengifluginu. Í Kaupmannahöfn er viðkomandi á eigin vegum og þarf að kaupa nýjan miða til Madrídar. Það gæti þó hjálpað að hafa samband við flugfélagið sem fljúga á með frá Kaupmannahöfn og upplýsa um stöðuna. Flugfélaginu er þó ekki skilt að veita neinn afslátt eða sérþjónustu. Ferðatryggingar bæta ólíklega svona tjón.

Stéttarfélög flugvallastarfsmanna hafa einnið boðað vinnustöðvun 23. og 25. apríl næstkomandi náist ekki kjarasamningar fyrir þann tíma.

BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN