Þess vegna prumpa flugfarþegar meira

Danskur prófessor útskýrir hvaða áhrif það hefur á magann og þarmana að ferðast um í háloftunum. Að tyggja tyggjó gerir illt verra

flugvel um bord chris brignola

Vélin fer á fleygiferð eftir flugbrautinni, mótorhljóðin magnast og loks tekur þotan á loft. Farþegarnir þrýstast að stólbakinu og akkúrat á þeirri stundu er hætt við að margir leysi vind í meiri mæli en almennt gerist á jörðu niðri.

Ástæðan er sú, að sögn danska prófessorsins Ole Bækgaard Nielsen, að loftið í meltingarveginum eykst þegar loftþrýstingurinn lækkar, líkt og gerist í farþegarýminu þegar flugvél hækkar flugið. Ef loftþrýstingurinn minnkar um helming þá tvöfaldast loftið í maganum útskýrir prófessorinn í viðtali við Politiken.

Að minnsta kosti fjórtán sinnum á dag

Í grein danska blaðsins kemur einnig fram að notkun á tyggigúmmí auki vindgang. En margir flugfarþegar tyggja tyggjó til að minnka líkurnar á hellum. Það má því leiða að því líkum að þeir sem það gera séu sérstaklega skæðir sessunautar um borð.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að það sé eðlilegt að leysa vind 14 til 23 sinnum á dag. Þeir sem eru í efri mörkunum prumpa því að jafnaði á klukkutíma fresti. Það þýðir að minnsta kosti þrisvar sinnum á leiðinni frá Keflavík yfir á meginland Evrópu og sennilega ennþá oftar miðað við kenningu danska prófessorins um aukin vindgang í háloftunum.